Prjónar lopapeysu á tengdason norsku konungshjónanna

Elsa María Guðmundsdóttir er að ljúka við að prjóna lopapeysuna á rithöfundinn Ara Behn.
Elsa María Guðmundsdóttir er að ljúka við að prjóna lopapeysuna á rithöfundinn Ara Behn.

Akureyringurinn Elsa María Guðmundsdóttir er að ljúka við að prjóna fallega lopapeysu. Það þykir í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, þótt prjónaðar séu lopapeysur á Íslandi. Það sem er þó sérstakt við þessa peysu er að Elsa er að prjóna hana á norska rithöfundinn Ara Behn en hann er tengdasonur norsku konungshjónanna Haraldar og Sonju, giftur prinsessunni Mörtu Lovísu. Elsa segir að forsaga málsins sé sú, að Þorbjörg systir hennar, sem er að læra norsku í Háskóla Íslands, hafi átt þess kost að hitta norska rithöfunda, sem voru að kynna bækur sínar í Norræna húsinu á dögunum. “Þar á meðal var Ari Behn, sem var að kynna bók sína, sem var að koma út á íslensku. Þorbjörg var í lopapeysu sem ég hafði prjónað á hana og Ari varð svona hrifinn af peysunni að hann fór að forvitnast um hvar hún hefði fengið hana. Þorbjörg sagði honum að ég hefði prjónað hana og hann spurði þá hvort hún héldi að ég væri til í að prjóna svona peysu á sig. Hann sagðist svo hrifinn af svona peysum og að þetta væri einmitt munstrið fyrir sig, sem og litirnir. Hann vildi því fá alveg eins peysu og Þorbjörg var í. Ég var alveg til í prjóna peysuna, byrjaði fyrir um þremur vikum og er nú að ljúka við hana. Peysan er úr ekta Álafosslopa og í gömlu sauðalitunum, gráum, hvítum, svörtum og brúnum.”

Elsa sagðist ekki vera neitt sérstaklega mikil prjónakona og ekki sú þolinmóðasta en prjónaði þó eina og eina peysu. “En það var virkilega skemmtilegt að fá þetta verkefni upp í hendurnar og ég er alveg til í prjóna peysu á prinsessuna líka. Ég hef gaman af því að setja saman munstur en peysan er hluta til mín uppskrift en einnig byggð á annarri uppskrift en munstrið mun heita Ari hér eftir.”

Elsa starfar með fólki með fötlun en hún er aðstoðarforstöðumaður hjá Skógarlundi/Birkilundi hæfingarstöð og deildarstjóri á deild skapandi starfs. Hún sagði að það væri jafnframt svo skemmtileg tilviljun að konan hans Ara, prinsessan Marta Lovísa, hefur sérstakan áhuga á að starfa í þágu fólks með fötlun. “Ég ætla því að senda henni hluti úr vinnunni hjá mér og skrifa þeim hjónum bréf, þegar ég sendi peysuna út og bjóða þeim að koma í heimsókn í hæfingarstöðina. Ég veit ekki hverju það skilar en það getur vel verið að þau þiggi boðið. Ari kemur oft til Íslands og honum finnst gott að koma hingað,” segir Elsa.

Samkvæmt fréttum frá norsku hirðinni eru Marta Lovísa og Ari Behn að flytja til London ásamt dætrum sínum þremur en jafnframt kom fram að prinsessan muni þó áfram starfrækja englaskóla sinn í Noregi og gegna konunglegum skyldum sínum, sem einkum beinast að velgerðarmálum fyrir fatlaða.

Nýjast