Bókakynning Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin
Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin. Í bókinni er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina. Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.
FYRST KOM Í LJÓS STÓRATÁ
Páll segir frá:
„Eitt sinn var ég sendur út á land í fjarlæga sveit til þess að sækja lík af gamalli konu. Þetta var mjög snemma á ferlinum og er mjög minnisstætt. Ég gleymi því ekki þegar ég var lentur og „köttaði“. Það komu þá einhverjir „jakar“ aðvífandi og berandi hvítan stranga á milli sín. Það var blessuð gamla konan, náttúrlega alveg stíf og vafin bara inn í lök. Hún komst ekki þversum í vélina þannig að það varð að setja hana í sætið fyrir aftan mig svo fæturnir stóðu alveg fram í kúpulinn þannig að þeir sköguðu fram í til mín. Leiðin lá svo til Reykjavíkur og ég tek fram að þetta var nú ekki alveg þýðasta þyrlan á flugi sem völ var á. Fyrir vikið var hristingur og smám saman fór lakið að flettast af þannig að fyrst kom í ljós stóratá og svo meira og meira af fótunum. Ég átti mjög erfitt með að festa ekki augun á fótunum meðan á fluginu stóð og mér varð ljóst að starf þyrluflugmanns í þjónustu Landhelgisgæslunnar yrði líklega æði fjölbreytt og inn á milli skreytt óvenjulegum uppákomum. Það átti enda eftir að koma á daginn.“
RÓIÐ Í LAND
Páll segir frá:
„Við Björn Jónsson ætluðum að fara að æfa nokkrar „autorotationir“ á Fossvoginum, það var svo upplagt. Ég held að það hafi verið bara í fyrstu „autorotation“ sem Bjössi sagði mér að slá af mótornum og þá átti vélin að fara í hægagang, en það drapst bara á mótornum. Bara dauðahljóð. Ég er með á tilfinningunni að við höfum verið að slást við „kollektív“ [stjórnun á skurði þyrilblaðanna] þarna báðir alla leið niður. Það er mikið atriði að hafa það rétt, að missa ekki niður hraðann á þyrlunni. En þetta varð bara fín lending á sjónum, það vantaði ekkert upp á það en okkur var náttúrlega brugðið. Ég skal alveg viðurkenna það. Það sást til okkar úr flugturninum – þeir höfðu verið þar að fylgjast með æfingunni. Slökkviliðið skaut strax út slöngubát en þá tók við önnur hörmungin. Þeir komu þjótandi í áttina til okkar en báturinn stöðvaðist svo skyndilega. Í ljós kom að splitti, sem hélt skrúfunni á utanborðsmótornum, hafði gefið sig og þar með varð mótorinn óvirkur. Það var þarna austanvindur og þyrluna rak hægt fjær landi. Mennirnir í bátnum tóku þá til ára og reru í áttina til okkar án þess að séð yrði að nokkuð drægi saman með bát og þyrlu. Mér leiddist þófið og settist út á flotholtið vinstra megin. Um síðir náðu björgunarmennirnir til okkar, taug var sett yfir í þyrluna úr bátnum og nú var róið til baka af miklum móð. Um síðir var landi náð og við dregnir upp í Nauthólsvík.“
Auðvelt er að sjá spaugilegar hliðar á slíku óhappi þegar allt hefur farið vel að lokum og eftirfarandi dæmi er líka í minnum haft.
HVER YKKAR ER FLUGMAÐURINN?
Benóný segir frá:
„Ég hafði verið að fljúga vélinni um morguninn. Þegar við lentum ætlaði Bogi Agnarsson að taka við henni en Björn Jónsson sagðist vilja fara því hann hefði verið búinn að lofa syni eins flugvirkjans að hann fengi að fara einn hring með sér í reynsluflugi. Svo að Bogi beið bara á meðan og ég með honum. Við hættum fljótlega að heyra í þyrlunni og okkur fór að lengja eftir henni til baka. Við hringdum upp í flugturn eftir góða stund og var þá sagt að Björn hefði orðið að nauðlenda á túninu við Kópavogshælið, þar sem fatlað fólk var vistað. Fólkið af hælinu dreif að og sýndi komumönnum mikla athygli. Lögreglan kom á staðinn, lögreglumennirnir litu yfir hópinn og spurðu: „Hver ykkar er flugmaðurinn?“ Birni mun hafa sárnað þetta eitthvað en hann sagði sjálfur frá þessu síðar.“
Ástæðan fyrir nauðlendingunni var sú að aðalgír þyrlunnar brotnaði. Vélin skemmdist mikið en ekki varð slys á mönnum. Þetta var síðasta flug á þyrlu af gerðinni Bell 47 í þjónustu Landhelgisgæslunnar.
Höfundarnir