Pottar með hreinu og köldu Atlantshafi ryðja sér til rúms

Magnús Sævarsson kokkur á Björgu EA 7 í ísköldum pottinum / mynd samherji.is/Björn Steinbekk
Magnús Sævarsson kokkur á Björgu EA 7 í ísköldum pottinum / mynd samherji.is/Björn Steinbekk

Á heimasíðu Samherja segir frá vinsældum ískaldra potta um borð í skipum félagsins en  það kemur  alltaf betur og betur fram hve  köld böð eru heilsusamleg fólki.  

Störfin til sjós eru á köflum erfið og mikilvægt að áhöfnin hugi að líkamlegri heilsu. Því skiptir miklu máli að aðbúnaður um borð sé sem bestur.

Í flestum stærri togurum er líkamsræktaraðstaða og gufubað, sem áhafnirnar nýta sér óspart. Nýjasta nýtt í þessum efnum eru ískaldir pottar, einn slíkur er einmitt um borð í Björgu EA 7, ísfisktogara Samherja. Pottinum hefur verið haganlega komið fyrir í stefninu á trolldekkinu og segir Magnús Sævarsson kokkur að notkunin hafi aukist jafnt og þétt, enda allra meina bót að fara í ískalt sjóbað. Sömuleiðis er pottur um borð í Harðbak EA 3, sem hannaður er fyrir bæði kaldan sjó og heitt vatn.

Helmingur áhafnarinnar fer reglulega í pottinn

“Við vorum lengi með venjulegt kar en í fyrra fengum við sérsmíðaðan pott og í kjölfarið hefur notkunin aukist jafnt og þétt. Tandurhreinn sjór úr Atlantshafinu er einfaldlega settur í pottinn og til þess að kæla sjóinn er ískrapa úr vinnslukerfinu dælt í hann, sérstaklega yfir sumartímann. Mér er sagt að sjóböð bæti ónæmiskerfi líkamans, þannig að hann geti unnið betur á ýmsum kvillum, svo sem slitgigt og bólgum. Ég giska á að rúmlega helmingur áhafnarinnar fari í pottinn reglulega enda er þetta afskaplega hollt og gott, um það eru allir sammála sem ánetjast pottinum,” segir Magnús Sævarsson kokkur á Björgu.

 Ávanabindandi

Sjálfur segist Magnús gjarnan fara snemma á morgnana í pottinn, venjulega eftir að hafa afgreitt morgunkaffið.

“Þegar menn eru lengi í aðgerð er fátt betra en að skella sér í ískaldan pottinn og kannski í gufu eða líkamsræktina á eftir. Við getum kallað þetta frost og funa, fara í íspottinn og síðan í vel heitt gufubaðið. Svona pottur er líka um borði í Kaldbaki EA og ég er nokkuð viss um að pottum fjölgi í flotanum í framtíðinni. Ég finn jákvæðan mun á mér eftir að hafa legið í pottinum í þrjár til fimm mínútur, þetta er hreinlega ávanabindandi.”

 Um borði Harðbak EA er sömuleiðis pottur, sem ýmist er fylltur með heitu vatni eða köldu og hreinu Atlantshafinu. Guðmundur I. Guðmundsson skipstjóri segir að potturinn sé ágætlega nýttur.

„Strákarnir fara venjulega í pottinn í upphafi frívaktar og flestum þykir gott að dýfa sér ofan í hreint og kalt Atlantshafið. Potturinn hjá okkur er einangraður, þannig að hann hentar undir bæði kalt og heitt vatn sem er ákveðinn kostur. Fyrir nokkrum árum síðan datt sjálfsagt engum í hug þægindi á borð við slíka potta, ég er ekki frá því að svona pottar verði taldir sjálfsagðir eftir nokkur ár. Maður les ekki annað út úr orðum sérfræðinga en að þetta geri fólki gott, ég tala nú ekki um sjómenn sem stunda líkamlega erfiða vinnu,“ segir Guðmundur skipstjóri á Harðbak.

Íspottum fjölgi í framtíðinni

“ Nýjustu skipin í flotanum eru hönnuð með það í huga að búa sem best að áhöfn og gera lífið sem þægilegast eftir því sem slíkt er hægt.  Eftir nokkur ár verða svona pottar staðalbúnaður,“ segja þeir Magnús Sævarsson og Guðmundur I. Guðmundsson.

Skrifar Karl Eskil Pálsson á www.samherji.is

 

Nýjast