Óska eftir hækkun á húsi við Hofsbót um eina hæð

Óskað hefur verið eftir því að hækka byggingu sem fyrirhugað er að reisa á lóð við Hofsbót 2 um eina…
Óskað hefur verið eftir því að hækka byggingu sem fyrirhugað er að reisa á lóð við Hofsbót 2 um eina hæð, þannig að húsið verði í allt 5 hæðir en ekki 4 eins og gert var ráð fyrir. Tvær efstu hæðir verða inndregnar.

Tillaga um að hækka hús sem verður byggt á lóðinni númer 2 við Hofsbót um eina hæð hefur verið lögð fram í skipulagsráði þar sem jákvætt var tekið í hana. Til stóð að byggja fjögurra hæða hús á reitnum, sem er á milli Hofsbótar 4 og Nýja bíós. Nú er óskað eftir að hæðirnar verði fimm í allt og þær tvær efstu inndregnar.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er heimilt að byggja fjögurra hæða hús á lóðinn sem gæti verið tæplega 1500 fermetrar að stærð, en tillaga lóðarhafa er að reisa fimm  hæða hús, alls 1636 fermetra að stærð.

Fram kemur í umsókn lóðarhafa um breytingu á deiliskipulagi að Miðbær Akureyrar einkennist af tiltölulega þéttri byggð sem einkennist af samfelldum þriggja til sex hæða húsaröðum. Þar sé einnig að finna óbyggðar lóðir sem bjóði upp á uppbyggingu sem sé til þess fallinn að styrkja götulínu að bæjarmynd í heild. Á svæðinu sé að finna blandaða landnotkun, verslun, þjónustu og íbúðabyggð en í núverandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða.

Uppbygging á horni Strandgötu og Hofsbótar er liður í að styrkja og loka götumyndinni.  Gert er ráð fyrir að verslun og þjónusta verði á fyrstu hæð en íbúðir á hæðunum fyrir ofan. Tekið er fram að ytra byrði á húsinu við Strandgötu 4, Nýja Bíó sem er við hlið byggingareitsins sé friðað og tekið verði tillit til þess með tilhlýðilegri virðingu.

/MÞÞ

Nýjast