Örlygur Hnefill ráðinn nýr verkefnastjóri Húsavíkurstofu
Stjórn Húsavíkurstofu hefur gengið frá ráðningu Örlygs Hnefils Örlygssonar í stöðu verkefnastjóra við stofuna. Örlygur mun hefja störf í næstu viku.
Í tilkynningu segir að starf verkefnastjóra sé fjölbreytt og snúi að daglegum rekstri Húsavíkurstofu, samskiptum og tengslum við meðlimi, sköpun og dreifingu á markaðs- og kynningarefni, viðburðum og öðrum tilfallandi verkefnum í samstarfi við stjórn stofunnar.
Örlygur hef unnið mikið með stofunni frá árinu 2009 og þekkir vel innviði hennar og sögu. Árin 2011 til 2015 var hann formaður stjórnar stofunnar og vann samhliða því um tíma í starfi forstöðumanns. Þá vann hann með Húsavíkurstofu í tengslum við og eftir tökur á Eurovision myndinni og var í forsvari fyrir hina svokölluðu Óskars-herferð.
Örlygur leiddi á sínum tíma vinnu við að hefja markaðssetningu á Demantshringnum og kom að ráðgjöf við Húsavíkurstofu og Markaðsstofu Norðurlands þegar núverandi verkefni var sett af stað. Hann hefur brennandi áhuga á markaðssetningu Húsavíkur og nærsveita og býr yfir miklu hugmyndaauðgi. Undanfarnar vikur hefur Örlygur unnið að kynningu Húsavíkur með fyrirlestrum um borð í skemmtiferðaskipum fyrir erlenda gesti.