27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Örlög reitsins verði rædd í samhengi við framtíð íþróttavallarins
mth@vikubladid.is
„Ég tel með öllu ótímabært að ráðast í endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldsvæðisreit. Fyrst er að kanna sem best hug bæjarbúa til svæðisins, hvort þar skuli byggja og þá fyrir hverja,“ segir Jón Hjaltason fulltrúi Flokks fólksins í skipulagsráði, en meirihluti þess hefur samþykkt að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags á tjaldsvæðisreitnum með það að markmiði að á svæðinu rísi blönduð byggð. Jón greiddi atkvæði á móti.
Skipulagsráð telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á markvisst samráð við íbúa við undirbúning og gerð deiliskipulags á reitnum og eins telur ráðið mikilvægt við gagnasöfnun, þarfagreiningu og undirbúning að ákvörðun verði tekin um íbúðir fyrir eldri borgara, hlutfall félagslegs húsnæðis og eða íbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga.
Náið samráð við bæjarbúa skiptir máli
Jón segir að sér vitanlega hafi hugur bæjarbúa til þessa reits og hvað eigi að vera þar ekki verið kannaður og hvort vilji væri til þess að þar rísi byggð. Hann vill að bærinn sýni fyrirhyggju, fresti endurskoðun á deiliskipulaginu og efni í haust til almenns íbúafundar um nýtingu á tjaldsvæðisreitnum. „Það liggur ekkert sérstaklega á nýrri íbúðabyggð á þessu svæði og að mínu mati ætti að ræða örlög tjaldsvæðisins í nánu samhengi við framtíð íþróttavallarins við Hólabraut. Staðan er þannig að nú eigum við ekki eftir nema tvær stórar óbyggðar flatir í miðjum bænum, tjaldsvæðið og íþróttavöllinn. Það skiptir því máli að hafa náið samráð við Akureyringa um það hvernig þessum flötum verður skilað í hendur afkomenda okkar,“ segir Jón.
Hann bendir á að til standi að reisa heilsugæslustöð á bílastæði við Icelandair hótelið en ágreiningur sé uppi um bílakjallara við stöðina. Þá sé einnig í deiglunni að stækka hótelið. „Skortur á bílastæðum kann að vera yfirvofandi á þessu svæði, sem bitna mun á starfsemi heilsugæslustöðvar, hótelsins og íbúum í nágrenninu. Það er nauðsynlegt að útkljá þetta mál áður en ráðist er í deiliskipulag á tjaldsvæðisreitnum,“ segir Jón.