Opnun nýju skíðalyftunnar frestast enn
Skíðavertíðin í Hlíðarfjalli hefur farið vel af stað það sem af er vertíðinni og gengið vel að virða sóttvarnarreglur. Skíðaþyrstir bíða enn í ofvæni eftir nýju stólalyftunni sem upphaflega átti að vera tilbúin í desember 2018 en opnun hennar hefur ítrekað verið frestað síðan.
„Það er verið að leggja lokahönd á framkvæmdir við skíðalyftuna. Það hafa verið ýmis tæknileg atriði sem verið er að útfæra,“ segir Geir Gíslason formaður Vina Hlíðarfjalls í samtali við Vikublaðið í vikunni. Slæmt veður að undanförnu hefur valdið töfum en að sögn Geirs mun veður ekki hafa úrslitaáhrif á rekstur lyftunnar þó að það sé vindasamara á þeim stað sem lyftan er miðað við núverandi stólalyftu.
„Auðvitað er þannig eins og með aðrar stólalyftur að þær eru ekki keyrðar í miklum vindi. Það er meiri vindur þarna uppi heldur en þar sem núverandi stólalyfta er en það er bara eins og gengur og gerist í þessu,“ segir Geir og bætir við að fyrir skemmstu hafi öllum skíðalyftum verið lokað í Hlíðarfjalli vegna vinds og segir að það sé bara eðlilegt og ekkert öðruvísi hvað nýju lyftuna varðar.
„Þetta hefur vissulega tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir og Covid-19 faraldurinn hefur ekki verið að hjálpa til. Það er verið að fá fólk að utan við að vinna við lyftuna þannig að það hefur vissulega gert okkur erfitt fyrir,“ útskýrir Geir aðspurður um það hvernig gangi að ljúka frágangi.
Hann segir ekki vera komin dagsetning á það hvenær lyftan verði tekin í notkun. „Ég þori ekkert að segja til um það. Það er verið að róa á öllum árum til þess að það verði sem fyrst,“ segir hann og bætir við að það verði klárlega á yfirstandandi skíðavertíð.
Í Facebook-færslu Akureyrarbæjar segir að verkið sé mjög langt komið en slæm veðurskilyrði um of langan tíma hafi gert mönnum óhægt um vik að klára ýmsa tæknilega vinnu við uppsetningu og frágang lyftunnar. Nú er markið sett á að hægt verði að taka nýju stólalyftuna í notkun eftir rúman mánuð eða í seinni hluta marsmánaðar.
Geir vill ekkert gefa upp um það hver endanlegur kostnaður við nýju lyftuna verður. „Hún kostar það sama fyrir bæinn og upphaflega var gert ráð fyrir og sama fyrir notendur en aðeins meira fyrir okkur. Við höfum ekki verið að gefa upp endanlegan kostnað enn sem komið er en eins og gefur að skilja kostar lyftan eitthvað meira en lagt var af stað með í upphafi.“
-epe