Ógnað með hnífi við grunnskóla

„Lögregla lítur vopnaburð alvarlegum augum og slíkt er aldrei réttlætanlegt, að ógna öðrum með vopnu…
„Lögregla lítur vopnaburð alvarlegum augum og slíkt er aldrei réttlætanlegt, að ógna öðrum með vopnum,“

Lögreglu á Akureyri barst tilkynning aðfararnótt laugardags um hnífaburð unglinga við grunnskóla í bænum. Þar hafði „aðila“ eins og það er orðað á facebooksíðu lögreglu verið ógnað með hnífi af öðrum.

Sérsveit ríkislögreglustjóra var ræst út og lögreglumenn fóru á staðinn. Bifreið var stöðvuð í bænum með meintum gerendum og tveir handteknir vegna meints vopnalagabrots og hótana og gistu fangageymslur stutta stund. Um var að ræða ólögráða unglinga en þó sakhæfa.

 Málið var unnið með barnavernd og foreldrum tilkynnt um það. „Lögregla lítur vopnaburð alvarlegum augum og slíkt er aldrei réttlætanlegt að ógna öðrum með vopnum,“ segir ennfremur.

Símanotkun undir stýri hefur aukist

Þá voru nokkur slys tilkynnt til lögreglu um helgina, þrjú umferðaróhöpp og tvö vinnuslys. Fimmtán voru kærðir fyrir hraðakstur, þó ekki hafi verið um að ræða ofsahraða, en hæsta talan sem sást var um 120 km/klst á 90 km/klst vegarkafla. Einhverjir voru kærðir fyrir símanotkun og eiga von á sekt sem ,,hefur ekkert lækkað“ eftir því sem best er vitað. „Okkur finnst símanotkun hafa aukist, þá ekki endilega að fólk sé að tala í símann heldur að nota símann, senda skilaboð, vera á Snapchat eða hvað sem er. Ökumenn nota tímann á gatnamótum við að vera í samskiptum við vini og vandamenn eða bara skoða fréttirnar,“ segir lögregla og brýnir fyrir ökumönnum að hafa hugann við aksturinn.

Nýjast