6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Öflugur mannauður er lykilatriði í verslunarrekstri
„Það eru spennandi og skemmtilegir tímar fram undan í versluninni, mikil og ör þróun sem gaman er að fylgjast með,“ segir Eiður Stefánsson formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni, FVSA. Verslun hefur almennt gengið vel í höfuðstað Norðurlands undanfarið og útlit fyrir vöxt í atvinnugreininni miðað við áform um opnun nýrra verslana síðar á árinu.
Eiður segir aukna sjálfvirkni einkenna verslun um þessar mundir. „Þetta er þróun sem hófst fyrir meira en áratug og með tilkomu t.d. sjálfsafgreiðslukassa hefur starfsfólki í verslunum fækkað og þjónusta minnkað. Næsta skref verður að vara er skönnuð jafnóðum og viðskiptavinur setur hana í körfuna og þegar verslunarferð er lokið er gert rafrænt upp um leið og gengið er út úr búðinni. Tækninni fylgir oft kostnaður sem þarf þá að skera niður annars staðar. Það þarf því að gæta að því að álag aukist ekki á þeim sem starfa á gólfinu“.
Eiður segir mikilvægt að félagsmenn séu duglegir að nýta sér þá þjónustu sem stéttarfélögin bjóði upp á. „Sjálfvirkni kallar á starfsfólk með tækniþekkingu því vitaskuld þarf að hanna, þróa og viðhalda t.d. sjálfsafgreiðslukössunum. FVSA hefur frá upphafi lagt áherslu á að styðja sína félagsmenn til náms og endurmenntunar og hefur það reynst mörgum vel í starfi. Því hvetjum við alla til að kynna sér starfsmenntastyrki félagsins.“