30. október - 6. nóember - Tbl 44
Ódýrara að trukka öllu suður en það er ekki umhverfisvænt
„Það er dýrt að taka við gleri og því reynum við af öllum mætti að taka ekki inn annað gler en það sem er í skilakerfinu,“ segir Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar. Fyrir utan umstang við að taka við óskilagjaldskyldu gleri, flytja það og brjóta tók ný gjaldskrá gildi hjá Akureyrarbæ í febrúar. Nýja gjaldskráin er mun hærri en sú sem áður var í gildi, hækkaði úr rúmum 6 krónur á kíló upp í 75 krónur.
Helgi bendir á að um áramót hafi [HL1] ný lög tekið gildi sem geri sveitarfélögum skylt að setja upp söfnunargáma fyrir gler. Nokkru eftir að þessar reglur voru innleiddar var gjaldskrá Akureyrarbæjar hækkuð. „Mér skilst að málið sé til skoðunar hjá Akureyrarbæ og við viljum vinna þetta í vinsemd með þessu ágæta sveitarfélagi,“ segir Helgi.
Talsvert er um að gler af ýmsu tagi, sultukrukkur, lýsisflöskur, glerflöskur undan olíu og fleiri slæðist með í dósapokum Akureyringa þegar þeir koma og skila inn til Endurvinnslunnar. Eftir að Akureyrarbær hækkað gjaldskrá sína kostar það Endurvinnsluna umtalsverða fjármuni að koma glerinu í viðunandi farveg.
Mismunun í gjaldskrá
„Það er svolítið sérstakt við þessa nýju gjaldskrá, að ef við værum með kennitölu á Akureyri væri gjaldið 8.20 krónur, en af því kennitala fyrirtækisins er skráð í Reykjavík er okkur gert að greiða 75 krónur fyrir kílóið. Okkar mat er það að mismunun í gjaldskránni skapi ekki gott fordæmi og er alls ekki í þeim anda að við séum öll í sama liðinu þegar kemur að endurvinnslu,“ segir Helgi.
Það sé því mun ódýrara fyrir alla ef Akureyringar skili öðru gleri en því sem skilagjald er á í grenndargáma sveitarfélagsins. Helgi segir að þetta háa gjald geri að verkum að það sé ódýrara fyrir Endurvinnsluna að keyra með glerið til förgunar á móttökustöð við Blönduós, um 400 kílómetra leið báðar leiðar, en gjaldið þar er um 8 krónur á kíló. „Það er meira að segja ódýrara fyrir okkur að trukkast með glerið alla leið suður til Reykjavíkur og endurvinna það þar fremur en að borga uppsett gjald á Akureyri. Það þykir okkur hins vegar ekki sérstaklega umhverfisvænn flutningur.“
Helgi segir að um sé að ræða tímabundið ástand og að verið sé að klára
það ferli að koma gleri til endurvinnslu beint frá Akureyri. „Við erum komin vel áleiðis en það eru ýmis flækjustig sem við eigum eftir að leysa úr.“
Sveitarfélög með 4 til 8 krónur á kíló
Helgi segir að hvergi á landinu sé gjaldskráin fyrir móttöku á gleri í líkingu við þá sem gildir á Akureyri. Felst sveitarfélög rukki á bilin 4 til 8 krónur fyrir kíló af gleri. „Við fáum þá skýringu að kennitala fyrirtækisins sé skráð í Reykjavík. Endurvinnslan er fyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík, en með starfsemi út um allt land. Það gengi ekki upp að skipta félaginu upp í margar litlar einingar hver á sínum stað út um landið,“ segir hann
Móttökustöðin á Akureyri tekur á móti um 1 milljón af flöskum og dósum á mánuði. Það eru um 15 tonn af plastflöskum og áldósum og 45 tonn af gleri. Ál og plast verður að nýjum drykkjarumbúðum á 60 dögum og gler mun fljótlega verða að nýrri glerflösku. Hvetur Helgi því alla til að flokka og koma skilaskyldum drykkjarumbúðum til Endurvinnslunnar slíkt sé hluti af hringrásarhagkerfinu.
[HL1]Ný lög