Óbreytt leiguverð hjá FÉSTA til áramóta

Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri sýnir samfélagslega ábyrgð og hækkar ekki leiguverð …
Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri sýnir samfélagslega ábyrgð og hækkar ekki leiguverð á næstu fjórum mánuðum.

Leiguverð íbúða og herbergja sem Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri mun ekki hækka samkvæmt vísitölu neysluverðs næstu fjóra mánuði, frá 1. september til 31. desember. Leiguverð á þessu tímabili verður þannig óbreytt til áramóta.  

Jóhannes Baldur Guðmundsson framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri, FÉSTA segir að stjórn hafi rætt þetta óformlega í byrjun vikunnar og tekið þessa formlegu ákvörðun á fundi í gær og vilji með henni gera sitt í baráttunni við verðbólgu. ”Við lítum á þessa ákvörðun sem hluta af samfélagslegri ábyrgð. Við viljum leggja okkar af mörkum í þessari baráttu,” segir hann.  

Jóhannes segir að rekstur hafi gengið betur í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það séu námsmenn sem leigi húsnæði af stofnuninni og þeir þurfi flestir að velta fyrir sér hverri krónu, öll hækkun á útgjöldum hafi mikil áhrif á þann hóp. ”Við viljum gera það sem við getum til að verja þennan hóp,” segir hann. Vonar hann að fleiri fylgi fordæmi stofnunarinnar. ”Það er mín skoðun að fleiri ættu að fylgja okkur í þessum efnum, þá er meiri von til að við náum markmiðunum um að draga úr verðbólgu.” 

Nýjast