Nýtt byggðamerki Þingeyjarsveitar

Goðafoss er í Þingeyjarsveit. Mynd/epe
Goðafoss er í Þingeyjarsveit. Mynd/epe

Þingeyjarsveit hefur kynnt nýtt byggðamerki sveitarfélagsins sem varð til við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar stærsta sveitarfélag Íslands að flatarmáli og er um 12% landsins innan marka þess. Merkið má sjá hér til hliðar. 

Skjaldarmerki

Byggð í sveitarfélaginu takmarkast við Fnjóskadal, Ljósavatnsskarð, Köldukinn, Bárðardal, Laxárdal, Aðaldal, Reykjadal og Mývatnssveit. Þéttbýliskjarnar eru á Laugum og Reykjahlíð. Megnið af landi sveitarfélagsins er í óbyggðum og nær það alveg inn á Vatnajökul og allt til sjávar við Skjálfandaflóa.

Merkið

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að merki Þingeyjarsveitar sé myndtákn af Herðubreið sem sé það kennileiti sem trónir hæst í sveitarfélaginu en tindur fjallsins er í 1680 metrum yfir sjó. Herðubreið þykir einstaklega formfagurt fjall og er á stundum kölluð „Drottning íslenskra fjalla“. Herðubreið var valin þjóðarfjall Íslendinga árið 2002.  „Auðkenninu er ætlað að standa, stutt af letruðu nafni sveitarfélagsins. Þannig skal setja það í forgang, næst á eftir kemur táknið eitt og sér, án leturs.  Leitast skal við að nota merkið á hvítum grunni eða svo ljósum að sjáist skýrt á fletinum. Það á bæði við um skjöldinn með og án leturs,“ segir í tilkynningunni.

Litir byggðamerkis Þingeyjarsveitar eru tveir bláir litir, ljósari blár til að tákna himinn og dekkri blár rammar merkið inn og? myndar útlínur fjallsins.

Útfærslur merkisins

Þá er greint frá því að Byggðamerki Þingeyjarsveitar sé sett fram í þremur megin útfærslum. Þær séu skjöldurinn óstuddur letruðu heiti sveitarfélagsins, skjöldur með letruðu heiti í lóðréttri útfærslu og skjöldur með letruðu heiti í láréttri útfærslu.

Að auki þessum útfærslum merkisins sé það viðurkennt hvítt á lituðum grunni og svart þar sem það á við.

Merkið hannaði Þórhallur Kristjánsson hjá  Effekt hönnun slf. 

Hönnunarstaðall

Í merki stofnunar, félags eða fyrirtækis eru tákn fyrir þau gildi sem hafa verið sett í tímans rás eða ákveðið hefur verið að vinna eftir. Merki er form til opinberrar auðkenningar og kynningar. „Samræmi í notkun merkisins, útliti og framsetningu, í hvaða miðli sem er, stuðlar að áreiðanlegri ímynd og styrkir þau gildi sem það stendur fyrir. Mikilvægt er að þeir sem nota merkið, bæði innanhúss og utan, fari eftir þeim stöðlum sem settir hafa verið þannig að þau markmið sem lagt hefur verið upp með náist,“ segir í tilkynningunni.

Leiðbeiningar um notkun merkisins og útfærslur eru í hönnunarstaðli  sem er að finna hér.

Nýjast