Nýr sveitarstjóri í Þingeyjarsveit
Jón Hrói Finnsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri Þingeyjarsveitar. Alls sóttu 10 umsækjendur um starfið og þrír drógu umsóknir sínar til baka
Jón Hrói er með embættispróf (Cand.sci.pol.) og BA próf í stjórnsýslufræðum frá Aarhus Universitet í Danmörku. Hann hefur starfað sem stjórnsýsluráðgjafi frá árinu 2019, m.a. fyrir Þingeyjarsveit í aðdraganda og framhaldi af sameiningu sveitarfélaganna. Sem ráðgjafi hefur Jón Hrói unnið ýmis verkefni fyrir sveitarfélög, ráðuneyti og opinberar stofnanir. Verkefnin hafa meðal annars snúið að stefnumótun, valkostagreiningum, rekstrarúttektum, endurskipulagningu rekstrareininga og hönnun verkferla.
Jón Hrói hefur víðtæka reynslu af störfum í stjórnsýslu sveitarfélaga, en hann hefur starfað sem sviðsstjóri búsetusviðs Akureyrarbæjar, sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs Akraneskaupstaðar og sem sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps á árunum 2010-2014. Í kjölfar sameiningar Fjallabyggðar var Jón Hrói þróunarstjóri sveitarfélagsins og hafði umsjón með samþættingu sameinaðra sveitarfélaga. Þar áður var hann ráðgjafi hjá ParX – viðskiptaráðgjöf IBM.
Að auki hefur Jón Hrói hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum, s.s. í stjórn Vaxtarsamnings Eyjafjarðar, Minjasafnsins á Akureyri og Leikfélags Akureyrar.