Nýjar reglur um fjárhagsaðstoð hjá Akureyrarbæ
Nýjar reglur um fjárhagsaðstoð hjá Akureyrarbæ voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Meirihlutinn lagði fram breytingartillögu við reglur um fjárhagsaðstoð á fundinum en þær miða að því að aðstoða þá sem höllustum fæti standa.
Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs Akureyrarbæjar segir að breytingarnar komi í beinu framhaldi af þeirri vinnu sem sett var af stað í upphafi kjörtímabils og endurspegli áherslu meirihlutans um að koma betur til móts við þá einstaklinga sem mest þurfa á að halda.
Helsta breyting í nýjum reglum er sú að í stað þess að foreldrar á framfærslu fái 25.000 krónur mánaðarlega með hverju barni sem sannarlega nýtur þjónustu daggæslu, leikskóla, frístundar og/eða skólafæðis mun raunkostnaður vera greiddur.
„Þá er einnig í nýju reglunum kveðið á um auknar heimildir til að greiða tómstundir fyrir börn, sem er í anda markmiða farsældarlaga, að grípa fyrr inn í aðstæður barna. Við vitum öll hvað tómstunda- og íþróttastarf getur haft góð áhrif á uppvöxt barna og er ég því ákaflega ánægð með að þetta skref hafi verið tekið,“ segir hún.