27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
„Nú þegar orðið mun stærra en sáum fyrir okkur í byrjun“
Fyrirtækið Íslandsþari ehf. hefur um nokkurt skeið verið með í undirbúningi uppbygginu stórþaravinnslu á Norðurlandi. Um tíma var til skoðunar að byggja upp 4000 fermetra verksmiðju á Dalvík eða Húsavík. Fyrirtækinu hefur verið veitt vilyrði fyrir 10.000 m² lóð á óráðstafaðri landfyllingu á hafnarsvæði H2 á Húsavík. Endanleg úthlutun lóðarinnar er háð því að deiliskipulagsbreyting sem heimilar byggingaráform fyrirtækisins taki gildi. Vikublaðið hitti Colin Hepburn, rekstrarstjóra fyrirtækisins á dögunum. Hann segir að verkefnið hafi stækkað umtalsvert á síðustu mánuðum og nú sé horft til þess að vera með starfsemi á tveimur stöðum. Annars vegar á Akureyri og hins vegar á Húsavík.
Verkefnið stækkað
„Það er rétt. Verkefnið hefur breyst á síðustu átta mánuðum, m.a. að því leyti að það hefur vaxið talsvert. Upphaflega horfðum við til þess að byggja upp eina 4000 fermetra verksmiðju en erum nú að stefna á tvær 3100-3500 fermetra verksmiðjur. Við horfum til þess að önnur þeirra verði staðsett á Akureyri en hin á Húsavík. Samtals um 7000 fermetra í stað einnar sem er 4000 fermetrar, svo umfangið hefur breyst mikið,“ útskýrir Colin.
Hann segir að ástæðan fyrir því að verkefnið hefur vaxið svo mikið sé einfaldlega sú að eftirspurn eftir afurðunum hafi aukist mjög mikið og sé í dag meiri en framboð. Þess vegna hafi verið ákveðið að auka umfang verkefnisins.
Hátæknivinnsla, fyrsta sinnar tegundar
Colin segir jafnframt að báðar verksmiðjurnar muni sinna fjölbreyttri vinnslu. „Á Húsavík verður bæði frumvinnsla og lokavinnsla. Við munum sækja nær allan stórþarann frá Húsavík. Hluti verkefnisins sem staðsettur verður á Húsavík köllum við Biorefiner 1 og starfsemin á Akureyri köllum við Biorefiner 2. Á Húsavík förum við af stað með framleiðsluferli sem hvergi hefur verið notað í heiminum hingað til. Þetta verður blanda af eðlis- og efnafræðilegum ferlum sem í grundvallaratriðum breytir þaranum í það sem kalla mætti hálfunnið hveiti,“ útskýrir Colin og bætir við að hluti þeirra afurða verði fluttur til Akureyrar til frekari vinnslu á mismunandi afurðum.
„Það er önnur afurð sem við hyggjumst framleiða á Húsavík og það er lífvirkt efni sem við köllum lífvirk efni. Þessi lífvirku efni er verið að rannsaka mikið í dag í tengslum við meðferðir á vírusum og krabbameinsmeðferðum. Þetta er hátæknivinnsla sem aðeins er hægt að framkvæma séu afurðirnar unnar úr ferskum hrávörum beint úr hafinu og verður að vera ferskt,“ segir Colin.
Aðspurður segir Colin jafnframt að eðli vinnslunnar og afurðanna sé þannig að lyktarmengun sé útilokuð og í raun viðkvæm fyrir annarri lyktarmengun.
Lyktarmengun kemur ekki til greina
„Já það er rétt. Ég hef verið í þarabransanaum í 32 ár og því miður er reynsla flestra af sjávargróðri sú að þari liggur á ströndinni jafnvel vikum saman og rotnar í sólinni. Vissulega hefur það í för með sér talsverða ólykt, það er engin spurning um það. En það eyðileggur líka allt sem við höfum áhuga á í þaranum. Það er því óhjákvæmilegt að við komum þaranum eins fljótt og auðið er inn í verksmiðjuna til að hefja vinnslu á meðan hann er ferskur. Á meðan þarinn er ferskur er engin lyktarmengun af honum,“ segir Colin.
Byggja gestastofu
Þá er hluti af verkefninu á Húsavík uppbygging gestastofu þar sem íbúum og öðrum gestum gefst kostur á að skoða og kynnast starfseminni. „Við erum að vonast til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið, íbúar fá því tækifæri til að koma inn til okkar og skoða vinnsluferlið. Læra um þara og verða vitni að því hvernig vinnsluferlið er.“
Colin segir að vissulega sé það ekkert nýtt að fyrirtæki séu í einhverjum iðnaði í tengslum við sjávargróður á Íslandi. Vissulega sé hægt að vinna ákveðnar afurðir við þurrkun á þara en samt glíma við vandamál eins og lyktarmengun. „Við getum ekki leyft okkur það. Allt verður unnið um leið og það kemur að landi. Strax og við hefjum vinnslu á þaranum er lyktarvandamálið úr sögunni,“ segir hann.
Samtarf við HA
Þá segir Colin að ljóst sé að störfin sem skapist á báðum stöðum muni krefjast sérþjálfunar og mikillar menntunar. „Eins og ég hef sagt þá erum við að þróa glænýja tækni við vinnsluna í tveimur hlutum og báðir þessir þættir verða til staðar á Húsavík. Vinnslan á Húsavík mun þannig auðvelda hluta vinnslunnar sem verður staðsett á Akureyri. Ég get sagt það strax að um hávísindaleg störf er að ræða á báðum stöðum. Og trúðu mér, þetta verður að gerast rétt hér á Húsavík til þess að vinnslan á Akureyri geti gengið. Þannig að ekkert gæti verið fjærri sannleikanum en að eingöngu verði um grunnstarfsemi með verkamannastörfum á Húsavík,“ útskýrir Colin og leggur áherslu á að vinnslan krefjist mikillar vísinda- og tækniþekkingar.
„Við erum því að tala um störf sem krefjast mikillar menntunar á báðum stöðum. Það verður stór áskorun að laða að menntað fólk og í því samhengi horfum við á starfsemina á báðum stöðum sem eina heild. Við höfum verið í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri, um hvernig við getum komið þeim vísindum og fræðum sem við þurfum á að halda inn í námskránna hjá þeim.“
Þá segir hann að hugsunin með gestastofunni á Húsavík sé m.a. til að vekja áhuga skólabarna á menntun sem tengist vinnslunni. „Við erum að horfa til þess að skapa um 150 störf á Norðurlandi, allt störf sem krefjast talsverðar þjálfunar og menntunar. Við vonumst því til þess að samfélögin á Akureyri og Húsavík muni líta þannig á málið að þau verði hluti af verkefninu okkar. Þetta er nú þegar við orðið mun stærra en sáum fyrir okkur í byrjun og erum gríðarlega spennt fyrir framhaldinu.“
Undirbúningur langt kominn
Að sögn Colins er undirbúningur verkefnisins vel á veg kominn og bjartsýni ríki um að starfsemin verði að veruleika. „Við erum að ljúka nákvæmri hönnun á báðum verksmiðjunum, í því sambandi er vinnslan á Húsavík komin aðeins lengra en sú á Akureyri. Við erum langt komin í okkar áætlanagerð hér á Húsavík og skipulagningu með hinu opinbera. Við erum líka komin langt með viðræður um orkumál og aðgengi að heitu og köldu vatni. Þeir þættir líta mjög vel út eins og staðan er í dag. Það er búið að fjárfesta mjög mikið í þessu verkefni nú þegar, svo ég er meira en bjartsýnn á að þetta verði að veruleika,“ segir Colin að lokum.
Uppfært:
Upphaflega var greint frá því að Íslandsþara hafi þegar verið úthlutað lóð við Norðurgarð á Húsavík. Hið rétta er að fyrirtækinu hefur verið veitt vilyrði fyrir lóð. Endanleg úthlutun lóðarinnar er háð því að deiliskipulagsbreyting sem heimilar byggingaráform fyrirtækisins taki gildi. Greinin hefur verið leiðrétt til samræmis við þetta.