30. október - 6. nóember - Tbl 44
Norðurorka Fjárfestingaþörf er heldur að aukast vegna uppbyggingar nýrra hverfa
Fjárfestingaþörf hjá Norðurorku er heldur að aukast, ný hverfi eru að byggjast upp á Akureyri og í nágrannasveitarfélögum. „Þær væntingar að hægt verði að draga úr fjárfestingum munu ekki ganga eftir á næstu árum,“ sagði Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku á ársfundi nýverið.
Hann nefndi einnig að ráðast þyrfti í umfangsmiklar rannsóknir og fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum til að mæta aukinni og vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku. Nú standa yfir rannsóknir á jarðhita í Eyjafirði þar sem boraðar eru u.þ.b. 30 hitastigulsholur sem eru fyrstu skrefin í því að staðsetja líklegan nýtanlegan jarðhita. Norðurorka hefur aukið umtalsvert við fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar.
Jarðhitasvæðið á Hjalteyri, sem staðið hefur undir allri aukningu í heitu vatni á Akureyri í um 20 ár, virðist nú vera komið í hámarks afköst og það er ýmislegt sem bendir til þess að draga þurfi úr nýtingu á svæðinu til lengri tíma til þess að það verði sjálfbært. „Það er að sjálfsögðu markmið Norðurorku að nýting auðlindanna sé alltaf sjálfbær og að ekki sé gengið nærri náttúrunni,“ sagði Eyþór.
Stefnt að tilraunaborunum á Ytri Haga næsta haust
Áform um að hefja tilraunaboranir á Ytri Haga á árinu 2022 gengu ekki eftir en ýmislegt hefur tafið framgang þar. Samt sem áður var mikið lagt upp úr rannsóknastarfi á því svæði á árinu. Nú er stefnt að því að hefja tilraunaboranir næsta haust og í framhaldi af því að bora vinnsluholu sem komin verði í notkun á fyrri hluta ársins 2026. „Til þess að það megi takast þarf allt að ganga upp og verður að segja að þetta eru bjartsýnustu spár,“ sagði Eyþór og bætti við að um margra ára verkefni væri að ræða þegar jarðhita er leitað, hann staðsettur og virkjaður.