27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Norðlensku sveitarstjórnarfólki líst ekki vel á gjaldtöku af notendum nagladekkja
Sveitarstjórnarfólki norðan heiða líst ekki vel á þá hugmynd að hefja gjaldtöku hjá notendum nagladekkja. Nokkrar umræður hafa verið um málið undanfarið og sýnist sitt hverjum. Umhverfisstofnun hefur viðrað þessa hugmynd til að reyna með því hvað hægt er að minnka notkun negldra hjólbarða.
Farsælla að upplýsa og hvetja fólk til að minnka nagladekkjanotkun
Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi á Akureyri segir að sér hugnist þessar hugmyndir ekki og tekur undir þau sjónarmið að með því væri verið að skattleggja öryggi íbúa. „Leita þarf leiða til að minnka svifryk og auka loftgæði og þar hefur notkun nagladekkja vissulega áhrif,“ segir hún. „Ég tel hins vegar farsælla að upplýsa og hvetja fólk til að minnka nagladekkjanotkun frekar en að leggja á hana gjöld.“
Allt aðrar aðstæður til vetraraksturs á landsbyggðinni
Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgárbyggð segir að sér lítist illa á sérstaka landsbyggðarskatta. „Það er auðvitað þannig að aðstæður til vetraraksturs eru allt aðrar á landsbyggðinni en suðvesturhorninu og varla framkvæmanlegt að banna nagladekkja notkun og skattleggja hana hér í vetrarríkinu sem ríkt getur á Norðurlandi,“ segir Snorri. Ef leggja ætti slíkan skatt á yrði hann að vera landshlutatengdur og með einhvers konar gjaldi miðað við akstur á ákveðnum svæðum eða götum með staðsetningarbúnaði. „Slíkt kerfi er örugglega dýrt og stendur kannski ekki undir kostnaði.“
Þarf að komast á milli á öruggan hátt
Soffía Gísladóttir bæjarfulltrúi á Húsavík segist skilja umræðuna út frá sjónarmiðum loftgæða og slita gatnakerfis. Hugmyndirnar þyrfti hins vegar að útfæra vel með tilliti til þess fjölda Íslendinga sem búa utan þéttbýlis og þá með öryggissjónarmið í huga. „Mörg sveitarfélög eru blanda af þétt- og dreifbýli, líkt og Norðurþing. Ég bý í dreifbýli innan sveitarfélagsins og því hugnast mér ekki þessi skattur, þar sem mikilvægt er fyrir mig að komast á milli staða innan sveitarfélagsins á öllum árstímum á öruggan hátt,“ segir hún.
Soffía segir að ef eingöngu sé verið að einblína á stærstu þéttbýlisstaðina þar sem loftgæði eru hvað verst og slit gatnakerfis sem mest þurfi einnig að hafa í huga þá bíla sem aki um staðina sem gestir, hún leyfir sér að treysta því að ef slíkt gjald yrði tekið upp verði því stillt í hóf. Mikilvægt sé að horfa til allra sem hagsmuna eiga að gæta og horfa heildstætt á málið.
Andstætt góðum siðum að skattleggja aukið öryggi
Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi segir að sér lítist hreint ekki vel á hugsanlega gjaldtöku á notendur nagladekkja, „ég tel andstætt góðum siðum að skattleggja sérstaklega aukið öryggi í umferðinni, sem nagladekk sannarlega veita.“ Þröstur segir einnig að útfærsla á slíku gjaldi verði alltaf erfið svo ekki yrði um verulegan landsbyggðarskatt að ræða. „Það er í góðu lagi að beita fræðslu og jafnvel áróðri á ákveðnum svæðum, en fyrst og fremst verður hver bíleigandi að meta kostina. Það fer eftir búsetu og gerð bifreiðar hvað best hentar fyrir hvern og einn,“ segir Þröstur sem sjálfur hefur ýmist ekið á nöglum eða ekki, einmitt eftir búsetu og bílkosti. „Hér á Grenivík hef ég notað nagladekk og mun gera áfram, enda duga þau best við þær vetraraðstæður sem hér er við að eiga.“