Nói Björnsson kjörinn formaður Íþróttafélagsins Þórs
Á aðalfundi Íþróttafélagsins Þórs i gærkvöldi tók Nói Björnsson við embætti formanns aðalstjórnar en fráfarandi formaður er Þóra Pétursdóttir. Á heimasíðu félagsins segir þetta af fundinum:.
,,Þóra Pétursdóttir, fráfarandi formaður, fór yfir starfsárið fyrir hönd aðalstjórnar Þórs, stiklaði á stóru varðandi ýmis mál og kom meðal annars inn á það að í næstu viku muni starfshópur á vegum félagsins eiga fyrsta formlega fundinn með fulltrúum Akureyrarbæjar vegna uppbyggingar á íþróttasvæði félagsins og er þá helst vísað til lagningar gervigrass og byggingar íþróttamiðstöðvar þar sem áhersla félagsins verður á að fá allar deildirnar og aðstöðu þeirra heim á félagssvæðið við Hamar.
Unnsteinn Jónsson gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins og afkomu einstakra deilda. Rekstur og afkoma er mjög mismunandi á milli deilda og til dæmis standa tvær af yngstu deildum félagsins, píludeild og rafíþróttadeild, mjög vel og rekstrarniðurstaða jákvæð. Fjölmennari deildirnar, handknattleiksdeild, körfuknattleiksdeild og knattspyrnudeild, eiga allar á brattan að sækja og afkoma þeirra misjafnlega slæm."