20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Nauðsynlegt að styrkja innviði ef taka á móti fleira fólki -segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk
Mikil aukning hefur verið í komum ferðamanna á Sjúkrahúsið á Akureyri það sem af er ári og er rúmlega 50% aukning ósjúkratryggðra á fyrstu 7 mánuðum ársins. Innlögðum ósjúkratryggðum hefur einnig fjölgað talsvert milli ára. Þá er áfram mikið álag á legudeildum og rúmanýting þar um 100%. Enn er sú staða fyrir hendi að sjúklingar liggja á bráðalegudeildum og á Kristnesspítala eftir föstu plássi hjá Heilsuvernd hjúkrunarheimili á Akureyri.
Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir að sú mikla aukning í komum ósjúkratryggðra á SAk hafi verið fyrirséð og áhyggjur af hugsanlegri stöðu hafi verið viðraðar á fundum með bæjaryfirvöldum og fleirum. „Það var ljóst að komur skemmtiferðaskipa yrðu fleiri en áður nú á þessu sumri og það er alltaf hluti af ferðamönnum sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Það ástand sem við óttuðumst að kæmi upp í sumar hefur orðið að veruleika, þ.a. við höfum tekið á móti miklum fjölda ferðamanna, fleirum en áður og það hefur skapað aukið álag á starfsemina sem var ærið fyrir,“ segir hún. „Þetta hefur verið býsna strembið tímabil.“
Hildigunnur segir að aukin fjöldi skapi vissulega auknar tekjur og ýmislegt sé jákvætt við fjölda ferðamanna í bænum. En einnig skapi það mikla aukavinnu að sinna erlendum ferðamönnum sem hingað leiti eftir heilbrigðisþjónustu, túlkaþjónusta m.a. og samskipti við tryggingafélög. Það bætist við álagið og mannekluna sem við sé að eiga.
Þarf að byggja upp innviði
„Það er að mínu mati komið að því að við förum yfir þessi mál og greinum betur þessar komur m.t.t. viðbragða. Það þarf að styrkja innviði, þeir þurfa að vera fyrir hendi ef stöðug aukning verður i komum ferðamanna. Búist er við að fjöldinn verði svipaður næsta sumar og við þurfum að vera í stakk búin til að mæta þeim áskorunum sem við okkur blasa og tryggja að til staðar séu nauðsynlegir innviðir sem ráða við þessa aukningu,“ segir Hildigunnur.
Legudeildir sjúkrahússins hafa verið fullar í sumar, rúmanýting á lyflækningadeild var 99,5% og 97,6% á skurðlækningadeild nú í ár. Einnig hefur verið þungt á geðdeild á árinu, rúmanýting þar er um 92% miðað við 70% á liðnu ári.
Nú í lok júlí biðu um 13% inniliggjandi einstaklinga á bráðalegudeildum og á Kristnesspítala eftir að fá fast pláss á Heilsuvernd hjúkrunarheimili á Akureyri. Álag á SAk hefur aukist til muna eftir að rýmum hjá Heilsuvernd fækkaði, vegna mygluvandræðam, og ekki hefur verið hægt að tryggja næga heimahjúkrun fyrir einstaklinga sem geta farið aftur heim.