30. október - 6. nóember - Tbl 44
Nauðsynlegt að fá nýja ferju í Grímseyjarsiglingar
„Við höfum, Grímseyingar óskað eftir því um nokkurt skeið að fá nýja ferju, það er eina vitið og ég trúi ekki öðru en að einhvers staðar í heiminum finnist skip sem getur hentað til ferjusiglinga milli lands og Grímseyjar,“ segir Halla Ingólfsdóttir sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Artict Trip í Grímsey. Ferjan Sæfari hóf siglingar í liðinni viku við mikinn fögnuð en á mánudag kom upp bilun í stýrisbúnaði. Viðgerð tókst og ferjan hóf siglingar á ný.
Sæfari var frá í 10 vikur, en ferjan var í reglubundinni skoðun og viðhaldi hjá Slippnum á Akureyri. Slíkt er nauðsynlegt til að viðhalda haffærni skipsins en nú fyrr í vor var komin tími á umfangsmeira viðhald og meiri skoðun en felst í hefðbundinni árlegri skoðun. Á þeim tíma sem Sæfari var í slipp sinnti fiskiskipið Þorleifur afurða- og vöruflutningum til og frá Grímsey en farþegaflutningar voru á vegum Norlandair og var flugferðum fjölgað á meðan ferjan var ekki tiltæk.
Halla segir að íbúar í Grímsey hafi bent á að Sæfari væri úrelt skip, ágætis sjóskip í raun en mikið sjóveikiskip og hafi margir ferðalangar reynt það á eigin skinni. „Skipið er gamalt og þegar eitthvað bilar er ekki gott að fá varahluti, þeir eru ekki til og finna þarf aðrar leiðir til að bjarga málum,“ segir hún.
Bent hafi verið á að Sæfari sé eina skipið sem ráði við verkefnið, að sigla frá landi og að komast inn í höfnina í Grímsey. „Það má vel vera að Sæfari sé eina skipið í heiminum sem geti þetta, en er þá ekki hægt að skoða aðrar lausnir eins og að stækka höfnina þannig að hún henti annars konar ferju?,“ segir Halla. Hún bætir við að sér finnist Grímseyingar ekki beint tala fyrir daufum eyrum þegar þeir benda á nauðsyn þess að fá nýja ferju, „en það tekur allt óskaplega langan tíma.“
Kalla eftir byggðastefnu stjórnvalda
Halla segir að vissulega búi fái í Grímsey yfir veturinn, en líflegra sé yfir sumarmánuðina og þá iðulega margir á ferli. „Við höfum kallað eftir stefnu stjórnvalda þegar kemur að byggðamálum hér. Það er alveg ljóst að ef byggð leggst af, ef enginn hefur hér vetursetu, þá verður ekki um það að ræða að fólk komi hér í 6 til 8 vikur yfir sumarið til að sinna ferðaþjónustu. Hún mun leggjast af,“ segir hún.
Halla segir ferðaþjónustu í Grímsey hafa vaxið á liðnum árum og allt að 20 þúsund farþegar komi árlega og skoði sig um í eyjunni. Flestir yfir sumarmánuði, en dreifist einnig vel yfir aðra tíma ársins. Sem dæmi sæki margir í að skoða norðurljós í Grímsey þar sem ljósmengun er lítil sem engin. Þannig hafi ljósmyndarar sótt í að koma og nýta sér vetrarfegurð eyjarinnar. Rithöfundar leiti líka í kyrrðina sem þar ríkir. „Tækifærin eru fyrir hendi og við höfum áhuga fyrir að nýta þau.“