Myndaði þétta loðnutorfu við Hjalteyri
Erlendur Bogason kafari í Eyjafirði hefur í nærri þrjá áratugi myndað og rannsakað lífverur neðansjávar við strendur Íslands og víðar. Myndatökurnar hafa aukist ár frá ári, viðskiptavinir hans eru meðal annars stórar efnisveitur, svo sem Netflix. Sunnudaginn 2. apríl datt Erlendur heldur betur í lukkupottinn, hann náði að mynda mjög svo þétta loðnutorfu rétt við Hjalteyri. Greint er frá þessu á heimasíðu Samherja þar sem skoða má myndband og fleiri myndir og lesa meira.
Myndaði í eina og hálfa klukkustund
„Ég var þarna í mesta sakleysi að týna skeljar handa steinbítunum mínum, þegar ég skyndilega var kominn inn í mjög svo þéttra loðnutorfu. Ég flýtti mér í land, sótti myndavélarnar og náði að vera með torfunni í eina og hálfa klukkustund og taka upp í góðum gæðum, 6K,“ segir Erlendur Bogason.
Erlendur Bogason heldur úti vefnum sjavarlif.is , þar sem hægt er að skoða neðansjávar myndir og myndbönd.