Mygla fundist í þremur grunnskólum Akureyrar

Framkvæmdir standa yfir í Lundarskóla. Klárað verður að skoða aðra grunnskóla síðar á þessu ári.
Framkvæmdir standa yfir í Lundarskóla. Klárað verður að skoða aðra grunnskóla síðar á þessu ári.

Örveruvöxtur hefur greinst í þremur grunnskólum á Akureyri undanfarin misseri; Brekkuskóla, Oddeyrarskóla og Lundarskóla. Búið er að fara í framkvæmdir í Brekkuskóla og Oddeyrarskóla og gerðar verða samanburðarmælingar í vor.

Verið er að vinna að úrbótum í Lundarskóla en í mörg ár hefur starfsfólk skólans kvartað undan óþægindum sem hugsanlega megi rekja til myglusvepps. Í skýrslu Mannvits um niðurstöður sýnatöku í Lundarskóla frá því í mars sl. þar sem 37 ryksýni og 6 efnissýni voru tekin kemur fram að vísbendingar um örveruvöxt hafi fundist á afmörkuðum svæðum í eldri hluta skólans. Framkvæmdir eru þegar hafnar til að vinna að úrbótum. Fram kemur í skýrslu Mannvits að engu síður sé ástandið almennt gott í skólanum.

Karl Frímannsson, fræðslustjóri á Akureyri, segir að árið 2018 hafi Akureyrarbær leitað til óháðra aðila til þess að gera úttekt á loftgæðum og hugsanlegri myglu innan skólamannvirkja bæjarins. Enn eigi eftir að skoða aðra grunnskóla og verður það gert síðar á þessu ári.

Segir stjórnendur engu leyna varðandi myglu

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari á Akureyri og trúnaðarmaður, skrifaði grein í blaðið í síðustu viku þar sem hún vakti athygli á myglu í grunnskólum bæjarins. Gagnrýndi hún m.a. stjórnendur fyrir lélegt upplýsingaflæði og sagði það upplifun skólafólks og foreldra að forsvarsmenn vilji halda myglunni leyndri.

Spurður út í þetta segir Karl að fólk hafi verið upplýst og skólayfirvöld séu ekki að halda neinu leyndu. „Þeir sem gerðu mælingarnar í skólunum komu á starfsmannafundi til að kynna niðurstöður, upplýst um stöðu mála á heimasíðum og foreldrar hafa fengið fréttir af gangi mála. Það hefur gengið vel þannig. Við teljum okkar vera að upplýsa eins og við eigum að gera því það eru engin leyndarmál í þessu. Heilbrigði er allra hagur og því má ekki gefa afslátt af því,“ segir Karl.

„Hvað varðar Lundarskóla þá er það alveg rétt að það hefur dregist að halda upplýsingarfund og það atvikaðist vegna ástandsins sem verið hefur í samfélaginu. En kynningarfundur er áætlaður mánudaginn 25. maí þar sem skýrsla Mannvits verður til umfjöllunnar.“

Alþrif í skólum

Karl segir ennfremur að gró hafi fundist í skólum sem rekja megi til þess að ekki hafi verið nægilega vel þrifið í skólunum. Nú þegar hefur hluti skólanna farið í alþrif á húsnæðinu og því verður lokið í öllum skólum nú í vor og sumar. 

 

 

Nýjast