27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
FRAMKVÆMDIR Á KA SVÆÐINU AÐ HEFJAST
Það stendur mikið til á KA svæðinu ef marka má stórvirkar vinnuvélar sem komnar eru inn á æfingasvæðið og bíða þess að vera ræstar til hefja útgröft fyrir fulkomnum keppnisvelli ásamt áhorfendastúku. Völlurinn verður lagður gervigrasi ásamt þvi sem undir honum verður snjóbræðslukerfi og við hann verða fljóðljós sem standast kröfur UEFA á leikjum í keppnum á þeirra vegum. Áætlað er að völlurinn verði klár fyrir fyrsta leik á N1 mótinu næsta sumar, stúkan með þaki og sætum fyrir 1000 manns verði svo vígð vorið 2024. „Það eru 14 ár síðan gröfurnar byrjuðu að grafa fyrir nýjum keppnisvelli okkar KA manna“ segir Eiríkur S Jóhannsson formaður KA, „en eins og við vitum, þá stóð sá gröftur ekki lengi yfir og var holan sem þá hafði myndast fyllt að nýju. Nú er loksins komið að okkur að nýju og við KA fólk erum virkilega spennt fyrir þeim framkvæmdum sem nú fara í hönd. Um verður að ræða virkilega tímabæra úrbót á aðstöðunni sem félagið býr við og mun koma til með að verða vel þegin af hálfu barna, unglinga og foreldra þeirra á svæðinu.“