Mikilvægt að bæta stöðu ADHD mála á Norðurlandi
Mikilvægt er að bæta stöðu ADHD mála á Norðurlandi, þörfin er mikil og úrræðin fá. „Staðan fyrir norðan er svipuð og um landsbyggðina alla, langir biðlista eftir þjónustu. Ástandið er skelfilegt í þessum málaflokki,“ segir Hrannar Björn Arnarsson framkvæmdastjóri ADHD samtakanna.
Þú ert númer 1250 í röðinni er yfirskrift opins málþings sem ADHD samtökin standa fyrir í dag um samfélagslega kostnað við biðlista og ómeðhöndlað ADHD. Talan vísar til fjölda þeirra fullorðinna sem bíða greiningar. „Það er í raun bara um eitt að ræða, að stórauka framlög til málaflokksins, fá fleira starfsfólk til liðs við ADHD teymin og auka hraðann í þessu ferli. Ómeðhöndlað ADHD kostar mikla fjármuni og ómælda vanlíðan þeirra sem við það glíma. En því miður er staðan þannig að teymin okkar eru alltof fámenn og því tekur ferlið í kringum greiningu langan tíma. Það þyrfti ef vel á að vera að vera helmingi fleira fólk að störfum við málaflokkinn miðað við aukna þörf og langa biðlista,“ segir Hrannar.
Birtingarmyndin önnur hjá stúlkum en drengjum
Hann segir að undanfarin ár hafi orðið vitundarvakning varðandi fullorðna og ADHD. Fjöldinn allur af fólki hafi verið að glíma við ógreint ADHD um árin, það hafi verið því til trafala í daglegu lífi og nefnir hann sérstaklega konur í því sambandi. Alltof mörg dæmi væru þess að konur væru undirgreindar, en athyglisbrestur og ofvirkni kemur oft öðru vísi út hjá stúlkum en drengjum og uppgötvast oftast mun seinna hjá þeim. Drengir eru gjarnan með mikla hreyfiþörf og þeim fylgja gjarnan hávaði og læti þannig yfirleitt er strax tekið á málum í skólunum. Birtingarmyndin hjá stúlkum er með öðrum hætti, þær hafa meiri þörf fyrir að draga sig í hlé og sýna jafnvel sinnuleysi og eru því frekar látnar afskiptalausar, þeim fylgja engin vandræði í kennslustofum.
Lenda í kulnun síðar á lífsleiðinni
Stúlkur með ADHD hafi verið ósýnilegur hópur í samfélaginu í mörg ár og þær ekki gripnar í sama mæli og strákar. Hjá stúlkum greinist ADHD því oft síðar á ævinni, oft um unglingsaldur. „Það eru mörg dæmi þess að konur fara í gegnum lífið, eignast börn, fara í langskólanám og lenda í alls kyns áföllum, svo kikna þær undan álaginu og fara í kulnun. Þetta er mikið að koma í ljós núna eftir því sem þekkingin er meiri. Þessar konur hafa oft verið greindar með eitthvað allt annað en ADHD; þunglyndi, kvíða, fíknisjúkdóm sem dæmi, þannig að aldrei var tekið á raunverulegum vanda,“ segir Hrannar. Því sé til mikils að vinna að grípa inn í sem allra fyrst, fá greiningu og taka á málum.
Fordómar gagnvart lyfjagjöf
Hann segir málefni ADHD fólks í ágætu horfi að mörgu leyti, m.a. séu fordómar hér á landi minni en víða annars staðar gagnvart fólki með röskunina. Það megi fyrst og fremst þakka mikilli og opinni umræðu, fólk sem glímt hafi við ADHD hafi verið duglegt að stíga fram og deila reynslu sinni og það sé alltaf af hinu góða. „Við finnum fyrir meiri fordómum gagnvart lyfjahlutanum, því miður. Reynslan hefur sýnt að það geri fólki gott að taka þau lyf sem við eiga og rannsóknir styðja það, en einhvern vegin eigum við eftir að komast yfir þann hjall að minnka fordóma við lyfjagjöfinni.“
Hrannar segir áhuga fyrir að auka starfsemi samtakanna á Norðurlandi, sem dæmi hafi í vikunni verið boðið upp á fyrirlestur um stúlkur og ADHD og ýmislegt fleira í farvatni. Starfsemin sé keyrð á framlagi sjálfboðaliða og þá skorti. „Við viljum gjarnan efla starfið fyrir norðan og hafa það sem öflugast en vantar fleira fólk til að bera það uppi.“