27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Mikið álag á Sjúkrahúsinu á Akureyri í sumar
mth@vikubladid.is
„Álagið hefur verið mikið í allt sumar og fátt bendir til annars en svo verði áfram,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir starfandi framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Sjúkrahússins á Akureyri. Auk þess sem kórónuveirusjúklingar hafa í töluverðum mæli legið á sjúkrahúsinu undanfarið er ýmislegt fleira í gangi, eins og parainflúensa og magakveislur. Ferðamenn eru margir í bænum sem eykur álag á bráðadeild. Þá náðist ekki að manna allar stöður með sumarafleysingafólki. „Ofan á allt erum við undirmönnuð,“ segir hún.
Fjórir kóvid sjúklingar voru á sjúkrahúsinu í byrjun vikunnar, þar af eitt barn. Þegar mest var nýverið voru 11 kóvid sjúklingar inniliggjandi en Ragnheiður segir mikið um smit í samfélaginu og talan geti hækkað á ný hvenær sem er. Hún nefnir að sjúkrahúsið hafi í nokkrum mæli tekið við kóvidsjúklingum af skemmtiferðaskipum sem lagst hafa að bryggjum á Akureyri. „Það er of snemmt að fagna sigri yfir kóvid, þetta er ekki búið.“
Aðrir sjúkdómar eru einnig skæðir um þessar mundir, inflúensa og magakveisa sem krefjast þess að fólk sé einangrað, en húsakynni spítalans henta ekki sérlega vel til þess.
Yfirfullt er á lyflækningadeild, skurðdeild og barnadeild og því nokkuð um að sjúklingar séu lagðir inn á aðrar deildir. „Það er allt pláss nýtt sem finnst þegar ástandið er með þessum hætti, það kemur fyrir að fullorðnir séu lagðir inn á barnadeild sem dæmi ef ekki finnst annað pláss,“ segir Ragnheiður.
Aðalvandinn er undirmönnun
Margt fólk er í bænum yfir sumarmánuði og segir Ragnheiður það auka álag á bráðamóttöku þar sem mikið hefur verið að gera undanfarnar vikur. „Aðalvandi okkur má segja að sé undirmönnun, við náðum ekki að ráða í allar sumarafleysingarstöður sem í boði voru, en það þýðir að okkar starfsfólk þarf að hlaupa hraðar, álagið eykst og það er endalaust verið að biðja fólk um að taka að sér aukavaktir. Þetta er orðið svo slæmt að við höfum þurft að kalla fólk inn úr sumarfríi,“ segir Ragnheiður og bætir við að því miður líti allt út fyrir að næstu vikur verði á svipuðum nótum.