20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Mikið álag á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Mikið álag hefur verið á legudeildum Sjúkrahússins á Akureyri það sem af er ári og var rúmanýting á lyflækninga-, skurðlækninga- og geðdeild sjúkrahússins vel yfir 100% á fyrstu þremur mánuðum ársins.
„Það hefur mikið álag verið á sjúkrahúsinu það sem af er ári, rúmanýting á ofangreindum deildum hærri en vanalega allt þetta ár,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. „Þetta mikla álag sem verið hefur í starfseminni, sem bætist við manneklu heilbrigðisstarfsfólks hefur augljóslega áhrif á okkur. Starfsfólkið er frábært og mjög lausnarmiðað en eðlilega hefur álag áhrif á starfsfólkið til lengdar.“
Hún segir að gripið hafi verið til ýmissa aðgerða til að laða að starfsfólk og þannig leitast við að létta á vinnuálagi þeirra sem fyrir eru „og höfum við fundið fyrir ánægju með þær aðgerðir.“
Auk mikils og vaxandi álags á legudeildir hefur einnig verið mikil aukning í komum á bráðamóttöku sjúkrahússins og er fjöldinn nú orðin sambærilegur eða ívíð meiri en var árið 2018 þegar mest var.
Æ fleiri erlendir ferðamenn
Komur erlendra ferðamanna eru vaxandi frá áramótum og hefur mikil aukning verið í innlögnum þessa hóps. „ Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað og við höfum eðlilega áhyggjur af sumrinu,“ segir hún og bætir við að stjórnendur SAk hafi verið í sambandi við bæjarstjórn með sínar áhyggjur sem og einnig ferðaþjónustuaðila varðandi skipulag heilbrigðisstarfsemi á svæðinu á komandi sumri og þá með það fyrir augum að draga úr álagi, „en að sjálfsögðu verður bráðaþjónusta alltaf tryggð,“ segir Hildigunnur.