20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Merkri sögu iðnaðarbæjarins verður haldið á lofti
„Iðnaðarsaga Akureyrar er merkileg og við munu leggja okkar metnað í að segja hana,“ segir Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri en í liðinni viku færðist rekstur Iðnaðarsafnsins yfir til Minjasafnsins. Fyrsta verkefnið er opnun ljósmyndasýningar í dag, fimmtudaginn 14. mars kl. 17. Þar verða sýndar 120 ljósmyndir frá hinum ýmsu iðnaðarfyrirtækjum sem störfuðu í bænum á árum áður. Sýningin verður í Minjasafninu en færist yfir í Iðnaðarsafnið með sumaropnun þess.
Haraldur segir að iðnaðarsögu Akureyrarbæjar verði haldið á lofti. „Hér í bænum búa heilu kynslóðirnar af fullorðnu fólki sem þekkja lítið sem ekkert til iðnaðarbæjarins Akureyrar, það man ekki söguna, fyrirtækin voru horfin af sviðinu þegar það var að alast upp og margir sem ekki hafa nein tengsl inn í þessa sögu. En það er líka talsverður hópur enn á meðal okkar sem starfaði hjá þessum fyrirtækjum og á minningar um þau,“ segir hann.
Minjasafnið hefur áður boðið upp á ljósmyndasýningarnar Hér stóð búð sem vöktu verðskuldaða athygli og margir sem litu við og sögðu frá sinni upplifun af verslunum fyrri ára á Akureyri. Haraldur væntir þess að það sama verði uppi á teningunum með iðnaðarsögu sýninguna. „Við vonum að fólk komi og deili með okkur sínum minningum af fyrirtækjum og segi sögur frá fyrri tíð. Það er mikill fengur að því,“ segir hann.
Nautasmásteikin fór vel í dósirnar frá Kjötiðnaðarstöð KEA
Útbúa fjölskylduvænt rými
Haraldur nefnir að framundan sé skemmtilegur tími og ýmislegt í farvatni, en ekki standi til að bylta Iðnaðarsafninu í einu vetfangi. „Við munum gera breytingar en förum okkur hægt,“ segir hann. Fyrsta verkefnið verður að taka til í fremsta rými safnsins á neðri hæð og koma þar fyrir fjölskyldu- og gestavænu svæði þar sem hægt verður að setja niður og eiga notalega stund.
Iðnaðarsafnið segir hann að hafi verið byggt upp af mikilli elju og ástíðu og fyrir því verði borin virðing. „Forverar okkar hér stóðu í ströngu við að varðveita þessa sögu og eiga heiður skilinn fyrir það starf. Eitt af markmiðum samkomulagsins frá í liðinni viku er einmitt að viðhalda og þróa það merka frumkvöðlastarf sem Iðnaðarsafnið og aðstandendur þess hafa staðið fyrir frá stofnun þess,“ segir Haraldur.
Haraldur Þór Egilsson safnstjóri á Minjasafninu á Akureyri og Þorsteinn Pétursson einn af Hollvinum Iðnaðarsafnsins
Efla safnið til framtíðar
Minjasafnið tekur nú við rekstri Iðnaðarsafnsins og faglegri umsjón með því og segir Haraldur að breytingar muni með tímanum m.a. sjást í breyttum áherslum og miðlun á efni safnsins en þar verður fagþekking starfsfólks Minjasafnsins nýtt í þágu Iðnaðarsafnsins. „Eitt af markmiðum samkomulagsins var að festa Iðnaðarsafnið í sessi og efla það til framtíðar, en einnig að tryggja áframhaldandi samfellu í starfsemi þess, öruggan rekstur og varðveislu safngripa.
Minjasafnið rekur nú sjö safneiningar og verður í mörg horn að líta á komandi sumri en gestkvæmast er jafnan á þeim árstíma. Auk Minjasafnsins og nú Iðnaðarsafnsins hefur það einnig á sinni könnu rekstur Leikfangasafnsins, Nonnasafns, Davíðshúss, Laufáss og Smámunasafnsins.
Akureyrarbær mun leggja fram 12 milljónir króna árlega til verkefna sem kveðið er á um í samningnum, leggur að auki til húsnæði þess og greiðir rekstrarkostnað. Safnið verður opið til að byrja með um helgar, frá 13 til 16 en stefnt er að því að frá og með sumardeginum fyrsta verði það opið daglega og þá á sama tíma en frá 1. júní verður opið frá 11 til 17.