27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Meindýraeyðir segir mýsnar sólgnar í rommlíkjör
Árni Logi Sigurbjörnsson hefur starfað sem meidýraeyðir í 43 ár. Hann segist aldrei hafa séð jafn mikið af músagangi og um þessar mundir. Hann segir músina vera mikinn skaðvald þrátt fyrir meinleysilegt og krúttlegt útlit og það sé brýnt að gera ráðstafanir með eigur sínar.
„Ég er nú búinn að vera var við mikinn músagang í haust. Ég hef verið úti um allt land að hjálpa fólki að losna við mýs, sér í lagi úr heyrúllum, sumarbústöðumog bílum ekki síst. Þær fara svona í bílana og stórskemma þá. Þær naga í sundur rafmagnssnúrur og annað í bílum sem flestir eru með tölvubúnað nú til dags. Þá kemur bara rautt ljós í mælaborðið og bíllin fer ekki í gang,“ segir Árni og á varla orð yfir fjöla músa og verður honum þó sjaldan orða vant.
„Ég hef aldrei séð svona mikið af músum og er búinn að vera í þessu síðan 1979, þetta er almesti músagangur sem ég hef séð síðan þá. Það er verið að hringja í mig alls staðar að af landinu,“ seigir hann og bætir við þessi grey geti valdið miklum skaða. „Ef þær komast í íbúðarhús og sumarbústaði og annað slíkt, þá naga þær allt sem þær komast í; svamp, lín og jafnvel rafmagnsleiðslur. Það er þeirra eðli að naga, og naga því allt sem fyrir verður.“ Aðspurður segir Árni að músin
smjúgi alls staðar inn þar sem ekki er nægilega þétt. „Þær komast í gegn um 10 millimetra gat ef því er að skipta. Það er með ólíkindum hvar þær ná að smeygja sér inn.“
En hvað er þá helst til ráða? „Ég segi alltaf að fólk eitri vel úti, gefi þeim gott að borða úti og þá drepast þær áður en þær komast inn. Ég nota það mjög mikið, set
upp hólka með eitri og úða þetta með rommlíkjör, þær eru brjálaðar í það. Koma og éta þetta og steindrepast,“ segir Árni að lokum.