Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
MATUR ER MANNSINS MEGIN-Hægeldaður lambaskanki
„Ég hef starfað í eldhúsi frá 14 ára aldri og hef haft mjög gaman að,“ segir Sigurður Már Harðarson matreiðslumeistari sem býður upp á einn af sínum uppáhaldsréttum, hægeldaða lambaskanka.
Sigurður starfar nú sem sölumaður hjá Innnes „og má með sönnu segja að ég sé enn þá innan veitingageirans,“ segir hann.
Veitingageirinn geti verið stressandi og mikið álag á fólki en hann geti líka verið afskaplega skemmtilegur
hafi menn áhuga, vilja og getu til að þróa sína hæfileika.
„Þótt maður hafi verið umkringdur eðal hráefni í gegnum tíðina þá finnst mér venjulegur heimilismatur alltaf skara fram úr sé hann rétt eldaður. Maður getur tengt svo mikið með mat líkt og tónlist og farið langt aftur í tímann þegar amma bauð uppá t.d. góða lambahrygginn með góða kryddinu sem var svo season all!“
Hægeldaður lambaskanki.
Uppskrift.
Fyrir 4.
4 góðir lambaskankar.
4 shallot laukar
6 hvítlauksgeirar
2 gulrætur
4 sellerístilkar
3dl rauðvín
2msk tómatpúrra
1l nautasoð (demi glaze) (má nota vatn og nautakraft líka )
2 greinar rósmarín
smá búnt af blóðbergi
1 msk svartur pipar
salt til smökkunar .
Aðferð .
Brúnið skankana í steypujárnspotti (cast iron) og kryddið vel með salti. Ekki vera feimin við saltið þar.
Skerið niður allt grænmetið frekar gróft.
Steikið lauk þar til hann fer að brúnast örlítið bætið svo öllu hinu grænmetinu saman við en hafið hvítlaukinn síðast. Bætið svo tómatpúrrunni saman við.
Hellið rauðvíninu saman við og sjóðið aðeins niður eða um 1/3. Bætið nautasoðinu saman við og fáið upp suðu.
Leggið skankana varlega ofan í ásamt kryddjurtunum. Bakið með loki á 150c í 5 til 6 tíma.
Tilvalið að brasa eitthvað á meðan þetta mallar í ofninum :)
Næst skal taka skankana afar varlega uppúr. svo kjötið detti ekki af beinunum.
Sigtið soðið og sjóðið varlega niður um helming. Hrærið svo smá af köldu smjöri saman við sósuna og berið fram. Hún ætti að vera þunn en afar bragðmikil.
Berið svo fram með steiktu rótargrænmeti og kartöflumús.
Eða bara gömlu góðu ora dósunum ekki dæmi ég ykkur.
Verði ykkur að góðu.