Aftur heim í búðina

Gabríel í Hríseyjarbúðinni. Ýmislegt hefur komið honum á óvart í verslunarrekstrinum, eins og: „Hvað…
Gabríel í Hríseyjarbúðinni. Ýmislegt hefur komið honum á óvart í verslunarrekstrinum, eins og: „Hvað þetta er svakalega mikil handavinna. Að breyta verði á öllu grænmeti til dæmis er búið að taka marga daga.”

Ungur og framsækinn rekstrarstjóri Hríseyjarbúðarinnar er Gabríel Ingimarsson, 25 ára Hríseyingur sem fluttist aftur á bernskustöðvarnar til þess að taka við rekstri verslunarinnar.

 

Ásrún Telma Hannesdóttir/ÁTH skrifar 

Hríseyjarbúðin hefur verið starfrækt frá árinu 2015 af eyjarskeggjum og eru hluthafar í búðinni 79 talsins. Í búðinni er bæði póst- og vínafgreiðsla og svo er einnig hægt að taka út reiðufé. Þá er einnig sjálfsafgreiðsluskúr við búðina sem er opinn allan sólarhringinn.

Gabríel segir viðskiptin ganga ágætlega. „Búðin er ekki rekin með það að sjónarmiði að fá greiddan út arð,” segir Gabríel. Þegar vel gengur er frekar reynt að lækka vöruverð og skila þannig til baka til litla samfélagsins í eyjunni, gera því skóna að það sé hagstæðara að versla í heimabyggðinni.“

Gabríel tók við rekstri búðarinnar þann 15. ágúst síðastliðinn. Hann hafði verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár og stundað þar nám og störf en Gabríel er útskrifaður viðskiptafræðingur með áherslu á fjármál úr Háskóla Íslands.

Í beinu framhaldi af útskrift árið 2022 fékk hann sumarstarf hjá Össuri og svo fastráðningu sem sérfræðingur í fjármáladeild fyrirtækisins. Síðasta vor sagði hann starfi sínu hjá Össuri lausu og fýsti í nýjar áskoranir. Þegar tækifærið gafst til þess að flytjast aftur á heimaslóðir og taka við starfi rekstrarstjóra Hríseyjarbúðarinnar, sat Gabríel ekki á sér og greip það góða tækifæri. „Þetta er náttúrlega heilmikil reynsla fyrir mig að fá að reka fyrirtæki.“

Búðin meiri viðkomustaður

Aðspurður um rekstur Hríseyjarbúðarinnar og framtíð hennar kveðst Gabríel hafa áætlanir um umbætur á Hríseyjarbúðinni. Hann segist vilja gera hana að meiri viðkomustað þar sem viðskiptavinir myndu dvelja aðeins lengur.

-Svona kaffihúsastemning?

„Já, akkúrat. Það þyrfti að uppfæra búðina svolítið með öðrum húsgögnum, parketleggja og gera svona aðeins huggulegt.“ Gabríel beið ekki boðanna og tók strax til hendinni. „Verkefni haustsins að semja við og finna nýja birgja og svoleiðis. Ég vil endilega halda verðinu eins lágu og hægt er.“

 -Hefur þú verið að prófa einhverjar nýjar vörutegundir? Hrintir þú öllu úr hillunum og komst með nýtt á þær?

Já, algjörlega. Ég reyni að koma með fjölbreytt vöruúrval, kannski eitthvað sem fæst ekkert í þessum klassísku lágvöruverslunum.“

-Hvað hefur komið þér mest á óvart varðandi rekstur Hríseyjarbúðarinnar?

„Hvað þetta er svakalega mikil handavinna. Að breyta verði á öllu grænmeti til dæmis er búið að taka marga daga. Að fara yfir lagerinn, hvað ég vil hafa á lager, reikna út álagningu, sjá hvar ég fæ þetta ódýrast, tala við birgja, verðmerkja og svo framvegis. Þetta er heilmikið og í mörg horn að líta. Alltaf eitthvað til þess að fylla á líka.“

Mörg járn í eldinum

Nú eru kosningar nýafstaðnar og var Gabríel í fjórða sæti á lista Viðreisnar fyrir Norðausturkjördæmið. Hann kveðst glaður yfir niðurstöðunum þar sem flokkurinn fékk einn kjördæmakjörinn þingmann í því kjördæmi og bætti vel við fylgi sitt heilt yfir.

Gabríel er enginn nýgræðingur á sviði stjórnmálanna og hefur verið ötull þátttakandi í starfi Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, síðustu ár og hefur setið sem forseti Uppreisnar frá hausti 2023. Gabríel hefur því nóg á sinni könnu að sinna rekstrinum ásamt stjórnmálastörfum.

„Þetta er búið að vera strembið varðandi búðina, með afleysingar og reddingar til dæmis. Margt sem þurfti að sitja á hakanum.“ Allt gekk þó á endanum með hjálp frá góðu fólki og tókst honum jafnvel að halda nokkuð vel heppnað kosningakaffi í búðinni.

Jólahaldið

Gabríel kveðst vera mikið jólabarn þó hefðirnar séu ekki margar, fyrir utan að jólin séu haldin heima í Hrísey með fjölskyldunni. Hann segist ekki vera mikið fyrir gjafir og umstangið í kringum það og væri frekar til að leggja í sameiginlegan ferðasjóð.

Hann segist hafa reynt að fá fjölskylduna til að prófa að verja jólum erlendis. „Ég hef reynt að sannfæra fjölskylduna um að við förum eitthvert, vera ein jól á Tene kannski, sleppa gjöfum og borga frekar fyrir svona ferð en sú hugmynd hefur ekki fengið sterkan hljómgrunn innan fjölskyldunnar,” segir Gabríel en fjölskyldan er heimakær í Hrísey yfir hátíðirnar. Áramótin eru hins vegar ekki svo fastskorðuð hjá Gabríel, þeim fagnar hann oft með vinum og ekki endilega í Hrísey.Jólunum mun Gabríel verja í eyjunni fögru með sínum nánustu á milli þess að sinna búðarrekstrinum.

Jafnvel verður haldið jólakaffi í búðinni.

-En er fólk að versla jólamatinn í Hrísey?

Það kemur í ljós, ég ætla að vera með „system“ þar sem fólk getur pantað og fær  verðtilboð í jólamatinn. Þá smíða ég einhverja pöntun eftir því sem fólki hugnast.“

-Það er mjög áhugavert að svona ungur maður grípi svona tækifæri, flytjist aftur heim í lítið samfélag úti í eyju til að taka við kaupstaðarversluninni.

Ég hefði kannski ekki flutt eitthvert annað út á land til að taka við rekstri lítillar verslunar,“ segir Gabríel sem gleðst yfir því að hafa fengið tækifæri til þess að flytja aftur heim á æskuslóðir og geta nýtt menntun sína í starfi þar.

                                   

Nýjast