27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Markmiðið að selja allt að 3000 bollakökur
„Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu. Það er greinilegt að þessi viðburður á sér stað í hjarta bæjarbúa,“ segir Anna Sóley Cabrera sem tók að sér umsjón með hinum vinsæla viðburði Mömmur og möffins sem verður í Lystigarðinum á Akureyri á laugardag, 30. júlí frá kl. 14 til 16.
Mömmur og möffins verða á dagskránni að nýju eftir tveggja ára hlé sökum kórónuveirufaraldurs. Viðburðurinn hefur um árin verið einn af dagskrárliðum hátíðarinnar Ein með öllu sem stendur yfir á Akureyri um helgina.
Jákvæð viðbrögð í samfélaginu
Anna Sóley ákvað ásamt þeim Kolbrúnu Dögg Tryggvadóttir og Ínu Steinke að taka að sér stjórn viðburðarins þegar ljóst var að þeir sem áður héldu um stjórnartauma hugðust láta þá af hendi. „Það mátti bara enginn til þess hugsa að þessi skemmtilega hefð legðist af. Ég heyrði það á mörgum að það yrði mikil eftirsjá ef svo hefði farið,“ segir Anna Sóley. „Ég ákvað að stökkva á þetta verkefni og hef ásamt fleirum verið að skipuleggja baksturinn,“ segir hún og er þakklát fyrir jákvæð viðbrögð úti í samfélaginu gagnvart verkefninu, allir vilji leggja sitt lóð á vogarskálar.
Þær stöllur segjast deila þeirri skoðun með bæjarbúum að málefnið sé verðugt, að styrkja og efla fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri. Deildin sé mögnuð, starfsfólkið einstaklega liðlegt. Þá sé öll umgjörð í kringum fæðingu barna til fyrirmyndar. Flestir séu til í að styrkja við og efla það frábæra starf sem unnið er á deildinni.
Bretta upp ermar og baka
Byrjað verður að baka bollakökur í eldhúsi Síðuskóla á morgun, föstudag kl. 17 og mæta þá 15 til 20 vaskar konur í það verkefni. „Við brettum upp ermar og skiptum með okkur verkum, þannig að ég á von á að þetta gangi bara vel smurt fyrir sig. Við stefnum á að baka um það bil 1500 bollakökur en að auki leggja fleiri okkur lið,“ segir Anna Sóley. Bakarí bæjarins eru öll af vilja gerð og hyggjast gefa bollakökur á hlaðborðið. Þá segir hún að fyrirtæki í bænum sýni einnig vilja í verki og gefi það hráefni sem til þarf.
Boðið verður upp á nýjungar í ár, m.a. verða í boði hollustu bollakökur og einnig verða í boði kökur smærri í sniðum en hinar hefðbundnu fyrir yngsta hópinn.
Fallegt samvinnuverkefni
Markmiðið er að selja um 2500 til 3000 bollakökur í allt en afrakstur sölunnar rennur óskiptur til fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri líkt og áður. Nú er verið að safna fyrir kaupum á þráðlausum mónítor sem mælir hjartslátt móður í fæðingu. „Þetta er fallegt samvinnuverkefni sem gengur upp þegar allir ganga til verks með jákvæðum huga. Við höfum alls staðar fengið góðar viðtökur og ég er að verða mjög spennt fyrir því að sjá þetta verða að veruleika. Ég vona svo sannarlega að bæjarbúar njóti þess að koma við í Lystigarðinum og eiga góða stund með okkur,“ segir Anna Sóley.