Markmiðið að ná jafnvægi í rekstri árið 2025
„Markmiðið er að ná jafnvægi í rekstrinum fyrir árið 2025 og ég er bjartsýn á að áætlun sem við leggjum fram fyrir seinni umræðu fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar muni sýna að það markmið náist,“ segir Halla Björk Reynisdóttir formaður bæjarráðs Akureyrar. Fyrri umræðu um fjárhagsáætlun er lokið og var hún m.a. kynnt á rafrænum fundi fyrr í vikunni.
Áætlunin gerir ráð fyrir að halli á rekstri Akureyrarbæjar verið ríflega 400 milljónir króna á næsta ári, en stefnt að batnandi afkomu á næstu árum. „Niðurstöðutölur fyrir samstæðuna eru neikvæðar sem nemur 408 milljónum eins og áætlunin lítur út núna eftir fyrri umræðu en vonir eru bundnar við að útkoman lagist þegar allar tekjutölur liggja fyrir,“ segir Halla Björk.
Leikskólagjöld ekki hækkuð
Útsvarsprósenta verður óbreytt, 14,52%, ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun varðandi fasteignaskattinn. Leikskólagjöld verða ekki hækkuð á næsta ári. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að gjaldskrá bæjarins hækki á bilinu frá 7,5% og upp í 10%. Halla Björk segir fyrirhuguðum hækkunum stillt í hóf eins og hægt er og sé í þeim efnum horft til þess að verja þjónustu við börn. „Sem dæmi þá gerum við ekki ráð fyrir að hækka vistunargjöld í leikskólum,“ segir hún.
Halla Björk segir að í áætluninni sé megin áhersla lögð á að hlúa að börnum, tekjulægri hópum og eldri borgurum. „Við ætlum að styrkja grunnkerfin okkar svo sem í velferðar- og fræðslumálum og eins munum við verja umtalsverðum fjármunum til umhverfismála,“ segir hún.
Umtalsverðar framkvæmdir
Umtalsverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næstu árum. Þannig er hlutur Akureyrarbæjar í byggingu nýs hjúkrunarheimilis um 380 milljónir króna á næstu þremur árum, bróðurparturinn, fellur á árin 2024 og 2025, 180 milljónir hvort ár. Til byggingar íbúðarkjarna fyrir fatlaða fara í allt ríflega 900 milljónir króna til ársins 2026, að jafnaði á bilinu 200 til 250 milljónir á hverju ári. Endurbætur á Glerárskóla kosta ríflega 1,1 milljarð króna og skiptist fjárhæðin niður á næstu fjögur ár. Þá má nefna að 923 milljónir fara í endurbætur á KA svæðinu, nýjan keppnisvöll þar og byggingu stúku. Til uppbyggingar á Þórssvæði fara 365 milljónir króna á næstu árum.