María Björk til liðs við Byggðastofnun
Byggðastofnun og María Björk Ingvadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri N4, hafa gert með sér tímabundið samkomulag um aukna upplýsingamiðlun af verkefnum stofnunarinnar. María Björk mun hafa yfirumsjón með heimasíðu og samfélagsmiðlum yfir samningstímann, fréttamiðlun til fjölmiðla og fræðslu til starfsfólks og stjórnenda í þeim tilgangi að auka sýnileika stofnunarinnar.
Arnar Már Elíasson forstjóri Byggðastofnunar segir stofnunina hafa nýlokið við umfangsmikla stefnumótun. ,,Hluti af nýrri stefnu snýr að þörf á auknum sýnileika og upplýsingamiðlun stofnunarinnar til þess að kynna þau þýðingarmiklu og fjölbreyttu verkefni sem hér eru unnin frekar fyrir landsmönnum öllum. Það er einkar ánægjulegt að hafa náð samkomulagi við Maríu Björk í leið að því markmiði, en hún hefur gríðarlega reynslu og þekkingu af fjölbreyttum málefnum landsbyggðanna.”
María hlakkar til samstarfs við frábæran hóp öflugra starfsmanna Byggðastofnunar. „Ég vona að saman getum við kynnt þau mikilvægu verkefni sem stofnuninni er treyst fyrir að sinna.“