30. október - 6. nóember - Tbl 44
Mannekla leiðir til skertrar þjónustu velferðarsviðs í sumar
Bergdís Ösp Bjarkadóttir forstöðumaður stuðningsþjónustu Akureyrarbæjar segir áhyggjuefni að ekki fáist fólk til starfa við stoð- og stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs Akureyrarbæjar í sumar. Skortur á starfsfólki veldur því að skerða þarf þjónustu í sumar, einkum frá byrjun júlí og fram í ágúst. „Það hefur ekki gengið vel að ráða fólk og við erum enn með nokkur stöðugildi sem enginn sækir um, þannig að ljóst er að ekki er hægt að halda úti fullri þjónustu með þann mannskap sem við höfum nú á næstu vikum.“
Bergdís segir að ekki verði hróflað við veikasta hópnum og þeim sem fá innlit oft á dag og aðstoð við daglega virkni. „Aðstaða fólks er misjöfn, við horfum helst til þess að yfir blásumarið detti helst út þeir sem standa sterkast að vígi og fá einungs þjónustu við þrif,“ segir hún.
Tæplega 700 heimili
Alls starfa á bilinu 70 til 80 manns við stuðnings- og stoðþjónustu á vegum velferðarsviðs, þar af eru ríflega 40 sem sinna stuðningsþjónustunni sem Bergdís veitir forstöðu. Á liðnu ári var veitt þjónusta inn á 692 heimilum á Akureyri, þannig að talsvert fleira fólk naut þjónustunnar, þar sem algengt er að fleiri en einn sé á heimili.
Bergdís segir að það að skera niður þjónustu nú í sumar sé þrautalending. Fólk fáist ekki til starfa og af því hafi menn verulegar áhyggjur. „Þetta er fjölbreytt starf og gefandi fyrir þá sem vilja starfa með fólki og er alls ekki verr borgað en sambærileg störf. En það er eitthvað sem veldur að fáir sækja um,“ segir hún og bætir við að það sé bagalegt því verkefnum fjölgi ef eitthvað er. Lokun deilda á Hlíð og á Kristnesi hafi þá keðjuverkun í för með sér að fleiri þurfi þjónustu heima við en áður.