Lyftistöng fyrir sveitarfélagið
Nýtt lúxushótel sem áætlað er að rísi rétt við Grenivík í Eyjafirði mun hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélagið að sögn Þrastar Friðfinnssonar sveitarstjóra í Grýtubakkahreppi. Eins og fjallað hefur verið um munu Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eigendur Viking Heliskiing og Scandic Guides, í samstarfi við erlenda fjárfesta, hefja byggingu á glæsilegu lúxus hóteli rétt við Grenivík. Hótelið, sem hefur fengið heitið Höfði Lodge, verður 5500 fm að stærð með 40 herbergjum, þar af fjórum svítum, ásamt bar, veitingastað, heilsurækt, funda- og ráðstefnusal og allri annarri þjónustu. Sérstök áhersla verður lögð á afþreyingar ferðamennsku fyrir hótelgesti og er stefnt að opnun Höfða Lodge í árslok 2022.
Áhrifin verði margvísleg
„Þetta hefur gríðarlega þýðingu í mörgu tilliti. Atvinnusköpun bein og óbein, ekki síst þar sem starfsemi þess er algerlega miðuð á afþreyingu sem byggist á náttúru svæðisins. Það mun skapa margvísleg tækifæri fyrir smærri aðila til þjónustu, bæði þá sem fyrir eru og einnig nýja möguleika,“ segir Þröstur. „Búseta fólks og þróun sveitarfélaga byggist alfarið á atvinnu og vöxtur gerist ekki nema með uppbyggingu og nýsköpun. Þessi starfsemi ætti að verða hrein viðbót við aðra ferðaþjónustu og er stíluð á dýrari enda markaðarins. Störf skapa tekjur og eru grunnurinn að getu sveitarfélaga til að veita þjónustu. Ég á einnig von á að þarna vinni mikið af ungu fólki, það kemur með börn í skóla og leikskóla og viðheldur samfélaginu. Áhrifin verða því margvísleg.“ Spurður um hvar hótelbyggingin sé stödd í ferlinu segir Þröstur að búið sé að undirrita samninga um land undir hótelið og sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar að lóðinni. „Þó ekkert sé kannski öruggt fyrr en það er komið, þá tel ég að þetta sé komið í höfn, verkefnið er fullfjármagnað eftir því sem ég best veit,“ segir Þröstur. Allt að 40 til 50 störf munu skapast vegna hótelsins, „sem verður þar með stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu. Mögulega meira með afleiddum störfumm“ segir Þröstur ennfremur.
Þröstur Friðfinnsson
Bjartsýni og trú í sveitarfélaginu
Þröstur segir mikinn uppgang vera í Grýtubakkarhreppi og m.a. hafa íbúðir verið í byggingu. Einni byggingu er nýlokið og annað í framkvæmd. Einnig eru áform um byggingu fleiri íbúðarhúsa. „Það er bjartsýni og trú á framtíðina hjá okkur. Við höfum haldið þokkalega sjó og atvinnuleysi verið með því lægsta á landinu allt þetta ár. Atvinnulífið hefur verið sterkt og stöðugleiki ríkt til langs tíma. Það eru fleiri áform í gangi um uppbyggingu atvinnu hér sem vonandi skýrast á næstu misserum. Ég trúi því að það sé góður gangur framundan og það að einstaklingar séu aftur farnir að byggja einbýlishús staðfestir þessa trú á framtíðina hér.“ Um 370 manns búa í Grýtubakkahreppi. Spurður um í íbúaþróun segir Þröstur að fólksfjöldinn hafi staðið í stað undanfarið. „Ef við lítum til síðustu 5 ára er þó heldur fjölgun en hitt og við trúum að nú horfi til enn betri vegar í þeim efnum.“