Loksins þegar maður lætur eftir sér að helluleggja í skóginum, helluleggur maður náttúrulega tré
Fyrirsögnin hér fyrir ofan er fengin úr Facebookarfærslu Skógræktarfélags Eyjafjarðar en það hefur væntanlega ekki farið fram hjá fjölmörgum gestum Kjarnaskógs að í sumar og í haust stóðu yfir miklar framkvæmdir á svæðinu við snyrtingarnar í Kjarnakoti og reist hefur verið ný líkamsrækt sem nefnd hefur verið Kjarnaclass. Eins var vegurinn gegnum skóginn endurbættur verulega. Vinsældir svæðisins fara ört vaxandi með ári hverju enda er alltaf hægt að finna skjól í Kjarnskógi, eitthvað sem unnendur hans kunna vel að meta.
Það voru starfsmenn Skógræktarfélags Eyjafjarðar sem báru hitan og þungan af framkvæmdunum öðrum en vegaframkvæmdum. Í áðurnefndri færslu á Fb. kemur fram að starfsmenn Skógræktarfélagins nutu ,,einstakrar aðstoðar Hákonar og starfsmanna hans hjá Garði og Hönnun sem á einungis tveimur dögum hellulögðu aðalinngang Kjarnaskógar við Kjarnakot. Töfratré var leiðarljósið og án nokkurra málalenginga birtist töfratréð sem leiða mun gesti skógarins um töfralendur framtíðar. Svo plöntuðum við auðvitað nokkrum alvörutrjám líka“