20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Lokaorðið - Bölmóðssýki og brestir.
Í gegnum tíðina höfum við lært margt varðandi góða líkamlega heilsu. Við hættum að reykja, erum dugleg að hreyfa okkur og vitum allt um hollt mataræði. Við lítum vel út hið ytra, eldumst lítið og borðum lífrænt.
Mætum svo á vinsælustu staðina og heitustu viðburðina og birtum fallegar myndir. En erum við jafn falleg að innan? Það sem við skrifum á samfélagsmiðla er ekki alltaf jafn fallegt og myndirnar sem við birtum af okkur. Þegar allt kemur til alls þá erum við einfaldlega það sem við leggjum rækt við, bæði hið ytra og innra. Við erum það sem við borðum, þess vegna eru sumir ýmist of þungir eða of léttir. Við erum líka það sem við hugsum, þess vegna geisla sumir af gleði og mildi og aðrir lykta af biturð og önuglyndi.
Stundum erum við ömurleg. Tölum niðrandi um aðra, rangtúlkum, hæðumst að, gerum öðrum upp skoðanir og snúum útúr. Vöðum áfram og skiljum eftir okkur ósýnileg svöðusár í sálum annarra. Það er vegna þess að við höfum trassað að rækta okkur hið innra og skortir færni til að staldra við, hlusta og íhuga. Getum við þjálfað hugann og losað okkur við vondar hugsanir með því að iðka núvitund í 5-10 mínútur á dag? Það hjálpar örugglega aðeins, en ég held að það sama gildi um þol hugans og þol líkamans.
Það þarf að iðka hvert andartak ætli maður að ná árangri. Kannski getur ein setning úr gömlu höfuðbókinni verið okkur gagnleg. Við getum skrifað setninguna á blað og fest á ísskápinn, á vegginn í vinnunni, á mælaborðið í bílnum og jafnvel framan á sjónvarpið. Það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér, skalt þú ekki gera öðrum. Þetta rúmast á litlum miða. Auðvitað reiðist maður og er ósammála mörgu, það er mannlegt, en þá reynir á þol hugans að vaða ekki fram hugsunarlaust. Enginn vill vera ljótur að innan en það er mjög auðvelt að verða þannig. Alveg jafn auðvelt og að verða sófadýr.
Sálin, þetta ósýnilega undur sem innra með okkur býr á betra skilið en bölmóðssýki og bresti.