Löggæsla og samfélagið í Háskólanum á Akureyri
Ráðstefnan Löggæsla og samfélag fer fram í fimmta sinn við Háskólann á Akureyri dagana 5. og 6. október. Á dagskránni eru 49 erindi og hefur ráðstefnan aldrei verið jafn umfangsmikil. Fyrirlesarar eru um 70 talsins og koma frá fimm heimsálfum. Greinilegt er að ráðstefnan hefur skapað sér nafn víða um heim en hún er haldin af námsbraut í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri.
Guðmundur Oddsson, dósent í félagsfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og einn skipuleggjanda ráðstefnunnar, segir ráðstefnuna vettvang fyrir fagfólk og fræðimenn til að reifa málefni sem tengjast löggæslu í víðri merkingu. „Ráðstefnan er mikilvægur liður í að byggja upp lögreglufræðisamfélag hérlendis, stuðla að aukinni samvinnu milli þeirra stofnanna sem skara réttarvörslukerfið og auðkenna leiðir til að gera góða löggæslu enn betri,“ segir Guðmundur.
Þema ráðstefnunnar í ár er mannekla, sem vísar til þess að Ísland er með hvað fæsta lögreglumenn miðað við höfðatölu í Evrópu og hefur þeim fækkað síðastliðin 15 ár.
„Mannekla kemur niður á almennri löggæslu, forvörnum og frumkvæðisvinnu og eykur álag á lögreglumenn. Það er vert að rýna í áhrif þessa og auðkenna leiðir til úrbóta,“ segir í kynningartexta um ráðstefnuna.
Auk manneklu lögreglu eru umfjöllunarefni fyrirlesara margvísleg s.s. sýnileiki og traust til lögreglu, löggæsla í fjölbreyttu samfélagi, lögreglunám, afglæpavæðing, siðrof, félagslegt taumhald í litlum samfélögum, áhrif COVID-19 á lögreglumenn, heimilisofbeldi, kynferðisafbrot, peningaþvætti, lögreglurannsóknir, samfélagsþjónusta og uppbyggileg réttvísi.
Ráðstefnan fer fram á íslensku og ensku.
Lykilfyrirlesarar eru tveir:
- Silje Bringsrud Fekjær, prófessor við Metropolitan háskólann í Ósló
- Jeremy M. Wilson, prófessor við Ríkisháskólann í Michigan
Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar: https://www.unak.is/is/samfelagid/vidburdir/loggaesla-og-samfelagid-2022