Lóð undir leikskóla við Naust of lítil fyrir stóran leikskóla

Lóðin vestan við Naust er og lítil miðað við þá stærð af leikskóla sem nú er á teikniborðinu. Mynd/M…
Lóðin vestan við Naust er og lítil miðað við þá stærð af leikskóla sem nú er á teikniborðinu. Mynd/MÞÞ
mth@vikubladid.is

Til stóð að næsti nýi leikskóli á Akureyri yrði á lóð við bæinn Naust, á milli Nausta- og Hagahverfa. Nú þykir sú lóð ekki nægilega stór fyrir þann leikskóla sem er á teikniborðinu og því leitað að annarri lóð.

„Það er engin önnur lóð til staðar eins og staðan er nú, en verið er að skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi,“ segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi Akureyrarbæjar. Minnisblað vegna staðsetningar leikskóla í Hagahverfi var til umfjöllunar á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs  sem lagði til að sótt verði um nýja og hentugri lóð sem betur þjónar framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Lóðin sem ætluð var undir leikskólann er of lítil fyrir þá stærð leikskóla sem nú er lagt til að verði byggður og þykir staðsetning sunnar en við Naustabæina betur þjóna framtíðaruppbyggingu og þeirri stærð sem talið er að þurfi.

Hugmynd um 150 barna leikskóla

Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs segir að frátekin sé um það bil 5.300 fermetra lóð vestan við bæinn Naust og sunnan við Naustagötu. „Nú er hugmyndin sú að byggja leikskóla fyrir allt að 150 börn, en slík bygging þarf að vera um 1.500 fermetrar að stærð. Óskastaðan frá sjónarhóli barna og starfsfólks er að slík bygging sé á einni hæð en það rúmast ekki á núverandi lóð,“ segir Andri. Vissulega segir hann að hægt væri að hafa byggingu að hluta til á tveimur hæðum, líkt og raunin er með Klappir við Glerárskóla, en það yrði samt þröngt um starfsemina þó sú leið væri farin.  „Þetta er praktísk ábending frá okkur í umhverfis- og mannvirkjaráði,“ segir hann og beindir á að yfirvöldskólamála þ.e. fræðslu- og lýðheilsuráð, og einnig skipulagsráð, hafi meira um það að segja hvar er best er að staðsetja leikskóla.

Nýjast