20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Listasafnið á Akureyri 30 ára Ævintýralegur uppgangur og aðsókn þrefaldast
„Það hafa verið mikil forréttindi að fá að stýra Listasafninu á síðustu árum. Uppgangurinn hefur verið ævintýralegur og þakklæti og góðvild bæjarbúa til safnsins dásamleg,“ segir Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri en 30 ár eru um þessar mundir liðin frá því safnið var opnað. „Við sjáum það í stóraukinni aðsókn á safnið og Ketilkaffi blómstar líka. Við viljum þakka fyrir okkur með fimm fjölbreyttum sýningum sem bætast við þrjár aðra sýningar í safninu og afmælisveislu sem er opin öllum alla helgina með viðburðum á færibandi. Heimafólk og gestir koma við sögu, gamalt og nýtt, fróðlegt og skemmtilegt. Það er best.“
Hlynur hefur stýrt Listasafninu á Akureyri undanfarin 9 ár og lætur af störfum á næsta ári, en gert er ráð fyrir að safnstjóri starfi ekki lengur en 10 ár við safnið. „Þetta hafa verið góð og eftirminnileg ár,“ segir hann og getur sérstaklega um velheppnaða stækkun og endurbætur á húsakynnum safnsins sem náðist fyrir aldarfjórðungsafmæli þess fyrir 5 árum. Listasafnið á Akureyri sé eftir þá breytingu í hópi stærstu listasafna landsins. „Þetta var einn stærsti áfanginn í sögu safnsins og gerði það að verkum að starfsemin varð fjölbreyttari, það skapaði færi á að bjóða upp á fleiri sýningar en áður,“ segir hann.
Fjórar hæðir, 12 salir
Safnið er á fjórum hæðum og sýningarsalir eru 12 talsins. Í húsakynnum Listasafnsins á Akureyri var áður rekið mjólkursamlag og ketilhús, en þessar tvær byggingar hafa nú verið tengdar saman með millibyggingu. Aðgengi er gott fyrir alla og í tengslum við safnið er rekið kaffihús, Ketilkaffi. Til viðbótar má nefna aðstöðu fyrir starfsfólk safnsins sem nú er komin á einn og sama stað og eins eru geymslur fyrir listaverk til staðar. Alls starfa 7 hjá safninu, ekki allir í fullu starfi.
Þá rekur Listasafnið þrjár vinnustofur sem eru mjög eftirsóttar en í þær sækja m.a. erlendir listamenn sem dvelja á Akureyri í mislangan tíma og starfa að sinni list. Við nýtum einnig vinnustofurnar fyrir listamenn sem eru að setja upp sýningar hjá okkur og nú dvelja þar fjórir listamenn. „Það er virkilega góð nýting á vinnustofunum og við erum ánægð með það.“
Aðsókn hefur þrefaldast eftir stækkun
Hlynur segir að aðsókn að safninu hafi stóraukist eftir stækkun. „Það má segja að á þessu ári hafi aðsókn allt að þrefaldast og hér er mikið líf alla daga. Við höfum í sumar verið að fá upp í 300 manns á dag og erum auðvitað himinlifandi yfir þessari góðu aðsókn,“ segir hann og bætir við að sýning Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, hafi algjörlega slegið í gegn. Mikið sé um að fólk hafi gert sér ferðir sérstaklega til Akureyrar til að sjá þá sýningu.
Hlynur kveðst finna mikinn velvilja meðal bæjarbúa í garð Listasafnsins og að mikill meirihluti sé stoltur af því að öflugt listasafn sé starfandi í heimabæ þess. Listasafnið á Akureyri sé eitt af kennileitum bæjarins. „Við finnum þetta greinilega og erum þakklát fyrir það,“ segir hann. En auk þess að sýna verk í sölum safnsins eru verk í eigu þess sýnd úti í samfélaginu, í byggingum í eigu bæjarins, svo sem í skólum og víðar. „Við viljum vera partur af okkar samfélagi og fara út fyrir safnið. Við settum upp sýningu á dvalarheimilinu Hlíð sem vakti mikla athygli og ánægju íbúanna, það eiga ekki allir heimangengt og þá er mikilvægt að geta farið út til fólksins,“ segir hann.
Söguleg mynd
Myndlistarmennirnir sem tóku þátt í fyrstu sýningu Listasafnsins í ágúst 1993: Kristján Steingrímur Jónsson, Finnbogi Pétursson, Kristinn Hrafnsson, Haraldur Ingi Haraldsson fyrsti safnstjóri Listasafnsins, Kristján Guðmundsson, Þorvaldur Þorsteinsson og Kristín Gunnlaugsdóttir. Ljósmyndari Golli