Líf að færast í Holtahverfi
Líf er að færast í nýtt Holtahverfi norður, svæði á milli Krossanesbrautar og smábátahafnar í Sandgerðisbót. Húsin rísa hvert á fætur öðru og fyrstu íbúarnir hafa komið sér fyrir í nýjum íbúðum. Enn er eitthvað eftir af lóðum og er Akureyrarbær um þessar mundir að auglýsa par- og raðhúsalóðir lausar til úthlutunar, en m.a. eru nokkrar lóðir lausar við Álfaholt, Hulduholt og Þursaholt.
Allt að 300 íbúðir
Í hverfinu verða allt að 300 íbúðir þegar það er fullbyggt og er íbúðir í blandaðri byggð fjölbýlishúsa, rað,- par,- og einbýlishúsa. Helstu einkenni þessa svæðis eru miklar klappir sem byggt hefur verið í kringum, þá er gott útsýni til allra átta, nálægð við strandlengju og lifandi smábátahöfn. Áhersla er á sjálfbærni, lýðsheilsu og umhverfisvænar samgöngur. Vistgötur eru óvenjumargar og er horft til þess að stuðla að góðu umhverfi fyrir hjólandi og gangandi, til dæmis með því að koma fyrir gróðurbeðum og trjám í götunum.
Til stóð að Búfesti myndi reisa um 130 íbúðir við Þursaholt og var hluti þeirra eyrnamerktur íbúum eldri en 60 ár, en það verkefni var unnið í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri. Í fyrrasumar komust áform um uppbyggingu íbúðanna í uppnám vegna nýrra lánaskilyrða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS sem voru þess eðlis að bróðurpartur félagsmanna féll ekki undir þau tekju- og eignamörk sem sett voru. Framkvæmdir fóru í fyrstu í biðstöðu en leikar fóru svo að Búfesti skilaði inn lóðunum.
Skoða hvað verður um lóðir við Þursaholt
Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi á Akureyri segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um þær lóðir sem Búfesti skilaði, þ.e. hvort þær verði auglýstar á ný eins og þær eru nú eða hvort breytingar verði gerðar. „Það er í skoðun,“ segir hann.
Þrjú myndarleg fjölbýlishús hafa risið við Dvergaholt 3, 5 og 7 og þegar eru nokkrir íbúar fluttir inn. Á lóð númer 1 segir Pétur Ingi að verið sé að hanna 10 íbúða hús á tveimur hæðum og gert er ráð fyrir að Brynja, sem á sínum tíma fékk lóðina úthlutaða verði með 5 íbúðir í því húsi.
Fyrstu húsin eru risin við Þursaholt