Orkey fær úthlutað lóð á Dysnesi Áform um að reisa stærri og öflugri verksmiðju

Orkey hefur fengið úthlutað lóð á Dysnesi og hyggst reisa þar verksmiðju með 3000 tonna framleiðslug…
Orkey hefur fengið úthlutað lóð á Dysnesi og hyggst reisa þar verksmiðju með 3000 tonna framleiðslugetu sem er umtalsverð stækkun frá núverandi verksmiðju. Mynd á vef Hafnasamlags Norðurlands

Orkey ehf. sem framleiðir lífdísil og efnavöru úr úrgangi hefur hug á að flytja starfsemi sína á Dysnes og byggja þar umtalsvert stærri verksmiðju en félagið hefur rekið á Akureyri undanfarin ár. Stjórn Hafnasamlags Norðurlands hefur samþykkt að úthluta Orkey lóð á Dysnesi og fyrirhugað er að ganga til viðræðna við fyrirtækið um uppbyggingu á svæðinu sem HN fagnar mjög.

Ragnar H. Guðjónsson framkvæmdastjóri Orkeyar segir að til standa að byggja upp og starfrækja lífdísilverksmiðju á lóðinni, en hún er um það bil 4.300 fermetrar að stærð. Framleiðslugeta nýrrar verksmiðju verður um 3.000 tonn á ári, en til samanburðar er geta verksmiðjunnar á Akureyri um 300 tonn á ári.

„Þetta er umtalsverð stækkun, sem snýst um það að starfa í námunda við Líforkuverið sem til stendur að reisa á Dysnesi. Við munum að hluta til nýta hráefni frá Líforkuverinu, þ.e. fituna sem til fellur,” segir Ragnar. „Okkar áform um að hafa verksmiðju okkur á Dysnesi eru því samofin áformum um tilurð Líforkuversins þar.“

Ragnar segir að þegar hafi lóðum verið úthluta bæði undir starfsemi Líforkuversins og Orkeyjar, „Til stendur að ganga frá samningum von bráðar“

Orkey var stofnuð á Akureyri árið 2007. Félagið tekur á móti notaðri steikingarolíu, sem á uppruna á veitingastöðum, mötuneytum og úr matvælaframleiðslu, frá söfnunaraðilum og framleiðir úr henni lífdísil. Við það næst umtalsverður umhverfisávinningur og til verður verðmæt vara sem sparar innflutning á eldsneyti. Gefn ehf. keypti Orkey sumarið 2023 af Norðurorku sem hafði átt félagið frá árinu 2020.

 

Nýjast