Er eitthvað að mér?
Rúmlega miðaldra kona hefur undanfarið dvalið á suðlægum slóðum í ríki Spánar. Vissulega er megin ástæða þess að þar er oftast betra veður en heima í Hafnarfirði. Kannski ekki komið í 20+ en nálægt því og hlýnar með hverjum deginum.
Ég þurfti samt að éta aðeins oní mig talið um kuldann heima þegar spáin um illviðrið á dögunum birtist í símanum mínum. Spennt fylgdist ég með þróun mála og veðurs og á meðan það mesta gekk á, fannst mér ég í alvöru vera að missa af einhverju. Frásagnir af eldingaveðri voru svo spennandi að ég tók varla eftir bláum himni og glampandi sól. Er eitthvað að mér?
Á þeim slóðum sem við höldum til núna höfum við komist að því að við erum á Hollenskri nýlendu, það mætti að minnsta kosti halda það. Ég held að ég hafi lært fleiri orð í hollensku en spænsku. Þeir fylla alla veitingastaði, verslanir og golfvelli og mál þeirra er bara farið að hljóma nokkuð fallega, enda óttalegt hrognamál eins og okkar.
Best af öllu að kaupa inn!
Eitt það dásamlegasta við þetta svæði er hversu gaman er að fara í verslun og kaupa matvæli. Grænmeti og ávextir; allt svo ferskt og gott. Hér er eingöngu hægt að kaupa það grænmeti og ávexti sem eru á uppskerutíma núna en annað, eins og jarðarber fæst ekki enda uppskerutíminn ekki kominn ennþá.
,,Á Spáni get ég skemmt mér fyrir lítið fé, á Spáni kostar sjússinn ekki neitt,” söng Laddi forðum. Enn í dag er svolítið til í þessu. Ég er reyndar orðin aðeins of miðaldra til að sækja næturklúbbana en kokteilar í ,,happy hour” kosta mjög lítið. Þá er dýrasta rauðvínsflaskan sem við finnum á um 10 evrur. Tek fram að ég er vandlát á vín og vil hafa það gott. Líter af bensíni er á 200 krónur og leiga á bifreið er viðráðanleg.
Svo svarið við spurningu hér að ofan er nei. Það er ekkert að mér. Það er bara allt í lagi, ef maður getur leyft sér það, að stinga af á dimmasta og kaldasta tíma ársins. Ég sakna einskis nema barnanna og barnabarnanna en líklega sakna þau mín minna en ég þeirra. Við vinkonurnar í saumaklúbbnum mínum tókum einmitt spjall um þetta nýlega þar sem við spurðum hver aðra hversu oft við hittum börnin okkar. Niðurstaðan var einmitt sú að við viljum hitta þau oftar en þau okkur. Þessi niðurstaða kemur í veg fyrir ofur- samviskubit vegna fjarverunnar sem við bætum upp með reglulegum símafundum.
Svo mörg voru þau orð!