Háskólinn á Akureyri hlýtur heimild til doktorsnáms í menntavísindum og sálfræði

Háskólinn á Akureyri hefur nú með heimild til doktorsnáms á átta fræðasviðum
Háskólinn á Akureyri hefur nú með heimild til doktorsnáms á átta fræðasviðum

Um miðja viku bárust þær gleðifregnir að Háskólinn á Akureyri hefði hlotið heimild frá ráðuneyti Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar til að bjóða upp á doktorsnám í sálfræði og í menntavísindum. Fyrir hefur skólinn heimild til að bjóða upp á doktorsnám á sex fræðasviðum.

„Þessar viðurkenningar eru frábærar fréttir fyrir Háskólann á Akureyri og staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið í uppbyggingu doktorsnáms við háskólann. Einnig er þetta staðfesting á að mikil vinna starfsfólks við að búa sig undir viðurkenningarferlið skilaði árangri,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir rektor.

Undirbúningsvinnan var umfangsmikil en Kennaradeild og Sálfræðideild ásamt Miðstöð doktorsnáms báru þungann af vinnunni undir styrkri leiðsögn skrifstofu gæða- og mannauðsmála. Í haust heimsótti alþjóðleg úttektarnefnd háskólann og skilaði í kjölfarið skýrslu þar sem deildirnar tvær og Miðstöð doktorsnáms og doktorsnámsráð fengu mikið lof.

Háskólinn á Akureyri er nú með viðurkenningu til doktorsnáms á átta fræðasviðum, auk þeirra nýju var fyrir heimild til doktorsnáms í félagsfræði, hjúkrunarfræði, líftækni, lögfræði, sjávarútvegs- og fiskeldisfræði og viðskiptafræði. Uppbygging doktorsnáms við skólann byggir á þeirri miklu þróun sem hefur verið í grunn- og meistaranámi við deildir skólans.

Auknar heimildir til doktorsnáms munu efla rannsóknir við HA og uppbyggingu öflugs þekkingarsamfélags á Íslandi, öllu samfélaginu til hagsbóta.

 

 

Nýjast