Lesandinn: Þorgeir Tryggvason

Þorgeir Tryggvason ríður á vaðið í Lesandanum og segir okkur frá uppáhalds bókunum sínum.
Þorgeir Tryggvason ríður á vaðið í Lesandanum og segir okkur frá uppáhalds bókunum sínum.

Húsvíkingurinn Þorgeir Tryggvason  er Lesandi vikunnar. Þorgeir starfar sem hugmynda- og textasmiður hjá Hvíta húsinu, hann hefur um langt skeið verið fastur álitsgjafi í Kiljunni. Þá hefur hann líka fengist við önnur ritstörf, einkum leikritun, sem og tónsmíðar og tónlistarflutning en hann er í hljómsveitinni Ljótu Hálfvitarnir.

Uppáhalds bók eftir erlendan höfund?

Hamlet – William Shakespeare 

Hamlet

Hristir upp í hausnum á manni, bæði vitsmunum og tilfinningum, á einstakan hátt. Merkilegasta skáldverk allra tíma.

Uppáhalds bók eftir íslenskan höfund?

Salka Valka – Halldór Laxness

Salka Valka

Besta skáldsaga Halldórs. Það var opinberun að lesa Sölku í fyrsta sinn fyrir nokkrum vikum. Hélt alltaf að ég hefði lesið hana, en það reyndist vera Gugga frænka og uppfærsla LH 1984 sem sat svona fast í minninu.

Fyndnasta bókin?

Enginn venjulegur lesandi

Enginn venjulegur lesandi – Alan Bennett

Elísabet Englandsdrottning villist inn i bókabíl og ánetjast lestri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir hið sameinaða konungsveldi. Stórkostleg skemmtun eftir besta son Leeds-borgar utan Elland Road.

Sorglegasta bókin?

bobby og Dingan

Pobby og Dingan – Ben Rice

Alltof fáir þekkja þessa litlu áströlsku perlu um litla stúlku og ósýnilegu vini hennar.

Besta spennu/hrollvekju bókin?

The Stand

The Stand – Stephen King

Ég er einarður King-aðdáandi og þessi ofvaxna heimsendalýsing er engu lík. Í krimmum er það svo Robert B. Parker.

Besta barnabókin?

Ottó nashyrningur – Ole Lund Kierkegaard

Ole Lund kom með pönkið inn í skandinavíska barnabókaheiminn og skákar þannig Saltkráku Astridar og Örlaganótt Tove. Meira pönk!

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Sókrates

Síðustu dagar Sókratesar – Platón

Ástæða þess að ég hætti við að læra efnafræði og fara frekar í heimspeki með ómældum afleiðingum fyrir allt mitt líf. Hún er örugglega enn til á bókasafninu – lesið hana ef þið þorið.

Ef þú myndir skrifa bók, hvernig bók yrði það?

Þættir af einkennilegum Húsvíkingum

Íslenski sagnaþátturinn, það sem stundum er kallað „þjóðlegur fróðleikur“ er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er líka í útrýmingarhættu, svo ætli ég myndi ekki reyna að feta í fótspor Sverris Kristjánssonar, Magnúsar frá Syðra-Hóli og annarra genginna snillinga formsins.

Toggar

Nýjast