Lesandinn: Sif Jóhannesdóttir

Sif Jóhannesdóttir, er Lesandi vikunnar. Hún er fædd og uppalin í Eyjafirði, en hefur síðust 17 ár búið í Þingeyjarsýslu. Sif starfar sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, er sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi og matvinnungur á Ærlæk um helgar.

„Móðurhlutverkinu hef ég sinnt í rúm 20 ár og það er alveg uppáhalds. Lestur hefur alla tíð verið mjög mikilvægur í mínu lífi og ég hef aldrei haft áhyggjur af að mér muni leiðast því það er til endalaust magn af góðum bókum sem ég á eftir að lesa,“ segir Sif.

Uppáhalds bók eftir erlendan höfund?

Lesandin 2

Ég á enga eina eftirlætisbók eftir erlendan höfund, ég les frekar mikið en man lítið. Þegar ég hugsa til baka er lestur bókarinnar 100 ára einsemd eftir  Gabriel García Márquez eftirminnilegur. Hana las ég þegar ég lá á sjúkrahúsi með brotinn fót og gat lesið allan daginn. Ég hafði reynt að byrja á bókinni áður en komst ekkert áfram með hana. En þarna fékk ég tækifæri til að gleyma mér við lesturinn og mér fannst bókin alveg mögnuð.

Uppáhalds bók eftir íslenskan höfund?

Lesandinn 2

Hér er nánast ómögulegt að nefna eina bók. Fyrst kemur upp í hugann þríleikur Jóns Kalman Himnaríki og helvíti, Harmur englana og Hjarta mannsins. Bækur sem maður týnir sér í og saknar þegar þær klárast. Þar fyrir utan þarf að fóðra „upp til heiða“torfbæjarsálina reglulega, bækur Jóns Trausta um Höllu, Dalalíf Guðrúnar frá Lundi og Sjálfstætt fólk eru fastir punktar á leslistanum.

Fyndnasta bókin?

Lesandinn 2

Bók Flosa Ólafssonar Ósköpin öll, sannleikskorn úr sambúð. Þá bók las ég upphátt fyrir Svein, einn kafla á kvöldi og þá var sko mikið hlegið.

Sorglegasta bókin?

Lesandinn 2

Þær eru svo margar sorglegar, en af þeim sem ég hef lesið á seinni árum þá situr Ljósa eftir Kristínu Steins í mér. Mér finnst bókin skrifuð af svo miklu innsæi og hlýju. Hún fjallar um andleg veikindi og viðbrögð aðstandenda og samfélags á tíma þegar þekkingin var minni. En þar fyrir utan hef ég lesið mikið af mjög átakanlegum bókum, sannsögulegum, sem fylla mann sorg og vanlíðan. En engin ein af þeim stendur sérstaklega upp úr.

Besta spennu/hrollvekju bókin?

Lesandinn 2

Síðasta bók sem ég þorði hvorki að halda áfram að lesa eða að hætta að lesa var Auðnin eftir Yrsu. Það var eitthvað í þeirri bók sem náði mér algjörlega. Glæpasögur eru minn veikleiki og þær eru margar alveg frábærar. Eins og margir er ég sérstaklega veik fyrir skandinavískum höfundum, er einmitt núna á síðustu blaðsíðunum í nýjustu bók Jo Nesbö.

Besta barnabókin?

Lesandinn

Ronja ræningjadóttir engin spurning. Ein af örfáum bókum sem ég hef lesið aftur og aftur, sem barn og síðan seinna sem fullorðin fyrir börn. Hún er um kvenskörung, gerist að mestu út í náttúrunni og er full af furðuverum, spennu og húmor.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Lesandinn 2

Sennilega Þjóðsögur Jóns Árnasonar, þær las ég spjaldanna á milli sem barn. Þá vaknaði minn áhugi á þjóðfræði. Sem hefur verið leiðarhnoð í mínu lífi síðan.

Ef þú myndir skrifa bók, hvernig bók yrði það?

Leiðinleg, ég hef lengi sagt við Svein að mig dreymi um að eyða mörgum árum í að skrifa bók um eitthvað sem engum (eða nánast engum) þyki áhugavert nema mér. Ég held að hugmyndin að baki því sé að skrifa skriftanna vegna en ekki útkomunnar vegna. Sennilega yrði það eitthvað þjóðháttalegt.

Nýjast