Leita til íbúa um nafn á sameinuðu sveitarfélagi
Byggðaráð sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps ákvað á fundi sínum 30. júní síðastliðinn að halda rafræna skoðanakönnun um nýtt nafn og byggðamerki sameinaðs sveitarfélags. Greint er frá þessu á heimasíðu sveitarfélagsins.
Allir íbúar sameinaðs sveitarfélags 16 ára og eldri munu geta tekið þátt í rafrænni skoðanakönnun í gegnum vefsíðuna Betra Ísland sem mörg sveitarfélög eru aðilar að og mikið er notuð í ýmsum könnunum og kosningum. Til þess að taka þátt þurfa íbúar að skrá sig inn í gegnum rafræn skilríki eða með íslykli. Ef íbúar eru ekki með rafræn skilríki eða lenda í vandræðum með könnunina er hægt að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins á opnunartíma til að fá upplýsingar um hvernig hægt er að taka þátt. Skoðanakönnunin hefst miðvikudaginn 7. júlí kl 14:00 og henni mun ljúka 18. júlí nk kl 16:00. Sveitarstjórn mun taka mið af niðurstöðum úr þessum könnunum við ákvörðun um nýtt heiti og nýtt byggðamerki fyrir sameinað sveitarfélag.
Hlekkur inná skoðanakönnunina má finna hér.
Í könnuninni verður hægt að velja um þau þrjú nöfn sem Örnefnastofnun lagði til að kæmu til greina eftir undirbúningsvinnuna sem farið var í við sameiningarvinnuna fyrr á árinu. Nöfnin eru:
1) Langanesbyggð
2) Langanesþing
3) Norðausturbyggð
Í könnuninni verður hægt að velja um tvö byggðamerki sem höfundur merkis Langanesbyggðar, Steinbjörn Logason, lagði til að notuð yrðu. Með honum kom Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir sveitarstjórnarfulltrúi sameinaðs sveitarfélags að valinu.