Leikur hjá Þór/KA í kvöld og þér er boðið!
Stelpurnar í Þór/KA taka í kvöld á móti liði Þróttar í Bestu deild kvenna á Þórsvellinum og hefst leikurinn kl 18. Þessi leikur er mjög þýðingarmikill fyrir heimastúlkur en liðið sem er skipað ungum og mjög efnilegum leikmönnum eiga i harðri baráttu um að tryggja sæti liðsins i deild þeirra bestu á næsta keppnistimabili. Jón Stefán Jónsson annar þjálfara liðsins hafði þetta um leikinn í kvöld að segja þegar vefurinn innti hann frétta.
,, Varðandi leikinn í kvöld þá langar mig að hvetja fólk eindregið til að koma og hvetja stelpurnar. Við Akureyringar eigum og getum verið stolt af þessu liði þó að á móti blási. Liðið okkar er bæði yngsta lið deildarinnar og það sem er skipað flestum heimastelpum. Þetta ætti að vera hvetjandi fyrir alla knattspyrnuáhugamenn á Akureyri og ég bendi á að stuðningur þeirra skiptir stelpurnar öllu. Við skulum nota þessar staðreyndir með okkur til góðra verka en ekki afsakana á slæmu gengi. ENGAR AFSAKANIR heldur nú skal gefið í og stigasöfnun hefjast af krafti!"
Rétt er að taka fram að frítt er á leikinn í boði stuðningsmanns sem ekki vill láta nafns síns getið og það er full ástæða til þess að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að mæta á Þórsvöllinn og hvetja Þór/KA til sigurs.