Leikskóladeild í Oddeyrarskóla eykur umferð um þröngar götur

Vestan skólans    Mynd Margrét Þóra Einarsdóttir
Vestan skólans Mynd Margrét Þóra Einarsdóttir

Fram hafa komið áhyggjur meðal foreldra barna í Oddeyrarskóla vegna aukins umferðarþunga sem fylgir því að sett verði upp leikskóladeild fyrir24 börn í hluta skólans. Leikskóladeildin verður staðsett þar sem nú er smíðastofa skólans. Foreldrar hafa velt fyrir sér hvort nemendur fái enga smíðakennslu næstu tvö til þrjú árin, en leikskóladeildin verður sett upp til bráðabirgða þar sem fyrirsjáanlegt er að ekki verða næg leikskólarými í boði fyrir öll börn næsta haust. Alls vantar um 50 leikskólapláss á Akureyri á þeim tíma.

Meirihluti fræðslu- og lýðheilsuráðs hefur lagt til að breytingar verði gerðar í tveimur grunnskólum bæjarins til að koma þar fyrir leikskóladeildum, Í 0ddeyrarskóla og Síðuskóla.  Kostnaður við að endurbætur á Oddeyrarskóla nema um 30 milljónum króna og bætist við þá upphæð kostnaður við gerð bílastæða og við kaup á búnaði. Rýmið er um 85 fermetrar að stærð og rúmar 24 börn.

Hverfið þolir ekki aukinn umferðarþunga

Margrét Þóra Einarsdóttir sem á barn í Oddeyrarskóla hefur bent á að umferð um Oddeyri aukist til muna með þessari ráðstöfun. Leikskólabörnum verði ekið í skólann, enda megi gera ráð fyrir að flest komi úr öðrum hverfum en af Eyrinni.  Umferð í námunda við skólann muni aukast mjög og sjái hún með góðu móti ekki hvernig hverfið þoli þá aukningu.

Snjómokstur umhverfis skólann sé jafnan ekki sá besti í bænum, enda erfitt um vik þar sem mikil þrengsli eru fyrir hendi og bílum lagt út við götur. Mikið sé um snjóhauga hér og hvar sem byrgja sýn og þá séu gangstéttir oft og tíðum ekki ruddar. Dæmi séu þess að haugum sé mokað við gangbrautir sem geri þær algjörlega tilgangslausar.

„Göturnar á Eyrinni eru þröngar, rútur eru á ferðinni vegna skólaaksturs, það er illa rutt og gangstéttir verða oft útundar þannig að börn er á ferðinni út á götu í myrkri. Við þessar aðstæður á svo að bæta enn á umferðina í kringum skólann, mér líst alls ekki á það,“ segir hún.

Smíðastofu fórnað

Margrét Þóra segir einnig að sér þyki einkennileg ráðstöfun að fórna smíðastofu skólans sem gerir að verkum að nemendur í Oddeyrarskóli fái ekki smíðakennslu næstu ár, en slíkt sé lögbundið samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Ekki sé möguleiki á að koma smíðastofu fyrir annars staðar í skólanum. „Ég og fleiri höfum velt fyrir okkur hvort þetta sé virkilega besta lausnin. Það er erfitt að sjá hvernig hægt er að réttlæta það að börn í einum bæjarhluta komist í leikskóla en önnur missi lögbundna smíðakennslu í staðinn,“ segir hún. „Ég vona svo sannarlega að þetta verði kynnt fyrir okkur foreldrum, bæði varðandi smíðakennsluna og eins hvernig á að tryggja umferðaröryggi á svæðinu.“

Nýjast