20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Leikið við hvurn sinn fingur
Nemendaleikhús framhaldsskóla landsins eiga sér langa sögu. Eins og fram kemur í sýningarskrá Leikfélags Menntaskólans á Akureyri þá er erfitt að segja nákvæmlega til um stofndag LMA en líklega hófst reglubundin starfsemi félagsins veturinn 1935-36. Þótt virðulegur aldur segi ekki endilega mikið um leikfélag sem tekur algjörum stakkaskiptum á nokkra ára fresti þá er ljóst að þeir sem eru við stjórnvölin hjá LMA þetta árið ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Söngleikurinn Anný, í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar, er magnað leikhús og krefst mikils af öllum sem hlut eiga að máli. Gaman hefði verið að fræðast aðeins meira um ástæður þess að Anný varð fyrir valinu en söngleikurinn byggir á skáldsögu Thomas Meehan. Verkið var fyrst sett á fjalirnar á Brodway árið 1977 og hefur síðan farið sigurför um heiminn.
Sagan sem söngleikurinn byggir á gerist í New York á fjórða áratug síðustu aldar og fjallar um Anný, 11 ára munaðarlausa stúlku, sem leikin er af Heklu Liv Maríasdóttur. Anný hefur ekki gefið upp vonina um að foreldrar hennar snúi til baka og sæki hana á munaðarleysingjahælið. Verkið hefst á söng og stimpingum Annýar og hinna stúlknanna á hælinu þar sem þeim er þrælað út af forstöðukonunni Karítas leikinni af Öglu Arnarsdóttur. Að öðrum ólöstuðum þá báru þær Hekla og Agla af í þessari sýningu sem skartaði þó öflugu liði bæði á sviði og baka til en samkvæmt sýningaskránni tóku 90 nemendur þátt í söngleiknum með einum eða öðrum hætti.
Leikurinn fylgir Anný sem strýkur af hælinu til að leita að foreldrum sem skildu hana eftir nýfædda. Eftir ótrúleg ævintýri á götum og skúmaskotum New York borgar lendir Anný inn á heimili miljarðamæringsins Danél Ólivers sem Ívan Árni Róbertsson leikur af miklu öryggi. Leikurinn berst svo fram og til baka milli heimilis milljarðamæringsins og munaðarleysingjahælisins og er ekki ætlunin að rekja söguþráðinn frekar þótt því sé lekið að ekki er ástæða til að óttast örlög Annýar þótt stundum sé útlitið ansi svart. Þótt efni verksins eigi ekki við með beinum hætti í velferðaríkjum samtímans þá koma óhjákvæmilega upp í hugann fréttir af bágri stöðu þúsunda íslenskra barna svo ekki sé talað frásagnir af ömurlegum örlögum gríðarlegs fjölda barna víða um heim.
Hvernig sem á því hefur staðið að þessi söngleikur varð fyrir valinu hjá LMA þá fer ekki á milli mála að hann gefur ungu hæfileikaríku fólki gullið tækifæri til að sýna hvað í því býr. Það er sungið og dansað af leikgleði, öryggi og þrótti. Þrátt fyrir að leikendur hafi allir augljósa skemmtan af sýningunni þá ná þeir að halda þeim alvarlega undirtón sem efnið gefur tilefni til.
Þótt nemendur standi sig heilt yfir afbragðs vel þá er erfitt að sjá hvernig sýningin hefði náð þeim hæðum sem hún gerir ef ekki hefði verið fyrir gjörva hönd leikstjórans Heru Fjord. Í viðtali við Heru í leikskránni segist hún ekki hafa viljað setja upp sýningu sem „væri neitt minna en stórkostleg”. Ástríða og metnaður nemenda hafi sannfært hana um að þeir væru sama sinnis.
Það er óhætt að óska Leikfélagi MA til hamingju með glæsilega sýningu sem hægt er að mæla með við alla jafnt unga sem eldri. Þetta er sannkölluð barnasýning fyrir alla aldursflokka. Fyrir utan sviðsetninguna sjálfa og umgjörð sýningarinnar þá ber að þakka leikfélagsstjórn LMA fyrir að koma til móts við bæjarbúa með því að setja á fjalirnar verk sem ætti allt eins heima í vetrardagskrá atvinnuleikhúss.
-Ágúst Þór Árnason